Innlent

Dúxaði Menntaskólann á Tröllaskaga: „Skipulagið númer eitt, tvö og þrjú“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Guðrún Júlíana Sigurðardóttir gerði sér lítið fyrir og dúxaði Menntaskólann á Tröllaskaga.
Guðrún Júlíana Sigurðardóttir gerði sér lítið fyrir og dúxaði Menntaskólann á Tröllaskaga. Aðsend

Guðrún Júlíana Sigurðardóttir gerði sér lítið fyrir og dúxaði Menntaskólann á Tröllaskaga með frábærum árangri. Hún hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi auk viðurkenninga fyrir ágætiseinkunn í dönsku, íslensku, spænsku, félagsgreinum, lýðheilsu og stærðfræði.

Guðrún segist alls ekki hafa búist við þessu og var að vonum glöð þegar blaðamaður náði tali af henni fyrr í dag. Hún viðurkennir þó að hafa verið sterkur námsmaður í gegnum tíðina og þótt gaman að læra. 

„Ég hélt ég myndi fá viðurkenningu í spænsku og ég var bara að vonast eftir því. Svo sagði aðstoðarskólastjórinn: „Hún verður beðin um að hinkra af því að hún er dúx skólans,“ og ég bara bjóst ekki neitt við þessu,“ segir Guðrún Júlíana um útskriftarathöfnina.

Hún hrósar skólanum í hástert og mælir mikið með náminu: „Kennararnir allir eru svo ógeðslega næs og ég er búin að mæla með þessum skóla við alla,“ segir Guðrún Júlíana og bætir við að vinkona hennar sé einmitt á leið í skólann eftir góð meðmæli.

Þegar blaðamaður spyr hver galdurinn sé á bakvið svona góðan árangur er Guðrún ekki lengi að svara: „Skipulagið númer eitt, tvö og þrjú,“ en bætir við að það hjálpi að sjálfsögðu að hafa gaman að náminu, sem hún svo sannarlega hafði. Næst á dagskrá sé líklega eitthvað í tengslum við lýðheilsufræði, en Guðrún Júlíana segir að það hafi verið eitt skemmtilegasta fagið í skólanum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.