Innlent

Vilja gera út af við á­form Lands­nets með breyttu aðal­skipu­lagi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Voga, segir afstöðu sveitarfélagsins hafa verið skýra frá upphafi; jarðstrengur skal það verða.
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Voga, segir afstöðu sveitarfélagsins hafa verið skýra frá upphafi; jarðstrengur skal það verða. vísir/arnar

Sveitarfélagið Vogar stendur eitt í vegi fyrir því að framkvæmdir við Suðurnesjalínu tvö geti hafist. Bæjarstjónin samþykkti tillögu að nýju aðalskipulagi í gær þar sem möguleiki á lagningu loftlínu er útilokaður.

Ferlið við að koma á annarri flutnings­leið raf­orku á Suður­nesin hefur verið í gangi í um tvo ára­tugi. Það hefur verið langt og strembið og þess vegna þarf kannski ekki að koma neinum á ó­vart að málið er enn og aftur komið í upp­nám. Og málið strandar nú al­ger­lega á sveitar­fé­laginu Vogum.

Öll hin sveitar­fé­lögin sem koma að málinu, Reykja­nes­bær, Grinda­vík og Hafnar­fjörður hafa þegar veitt Lands­neti fram­kvæmda­leyfi fyrir lagningu Suður­ne­sja­línu 2.

Vogar höfnuðu því hins vegar og hófu í gær ferli við að breyta aðal­skipu­lagi sínu til að koma endan­lega í veg fyrir að Lands­net fái sínu fram­gengt.

Deilurnar snúast ekki um hvort þörf sé á línunni heldur hvernig hún verði út­færð.

Lands­net vill leggja aðra loft­línu við hlið Suður­ne­sja­línu 1 en Vogum finnst skapast allt of mikil sjón­mengun af því. Því vill bærinn að línan verði lögð í jörðu.

Nú­verandi aðal­skipu­lag Voga leyfir báða kosti en nú stendur til að breyta því.

Þá úti­lokiði alveg þann mögu­leika að hún verði í lofti?

„Já, eftir að hið nýja aðal­skipu­lag tekur gildi þá er það það eina sem leyft verður,“ segir Ás­geir Ei­ríks­son, bæjar­stjóri Voga.

Þetta stangast þó á við kerfis­á­ætlun Lands­nets, sem sveitar­fé­lögum er skylt að taka mið af sam­kvæmt lögum, og við svæðisskipulag Suður­nesja, sem gerir ráð fyrir að sveitar­fé­lögin leyfi báða kosti.

Stærstur hluti Suðurnesjalínu 1 liggur í gegn um Voga. Landsnet vill reisa aðra loftlínu við hlið hennar en Vogar vilja setja hana í jörðu.vísir/arnar

„En það er hins vegar alveg rétt að svæðis­skipu­lagið er þarna líka og það þarf þá, til að þetta öðlist allt gildi, væntan­lega að upp­færa það til sam­ræmis við þetta,“ segir Ás­geir.

Til að ná fram breytingum á skipu­lags­á­ætlun Suður­nesja verða þó öll sveitar­fé­lög sem koma að henni að sam­þykkja þær. Þar sem Vogar standa einir í bar­áttu sinni fyrir jarð­streng má auð­vitað velta því fyrir sér hvort hin sveitar­fé­lögin hleypi slíkum breytingum í gegn.

Taka um­sókn Lands­nets aftur fyrir

Úr­skurðar­nefnd um­hverfis- og auð­linda­mála felldi á­kvörðun Voga um að synja Lands­neti um fram­kvæmda­leyfi fyrir loft­línu úr gildi í októ­ber. Sú um­sókn er því aftur til með­ferðar hjá sveitar­fé­laginu.

„Við erum þessa dagana að ganga frá ráðningu verk­efna­stjóra sem við munum fá til að­stoðar til þess að ganga úr skugga um það að okkar að­koma að um­fjölluninni sé rétt og vel gerð og vel að henni staðið,“ segir Ás­geir.

Þannig verði gengið úr skugga um að brugðist verði við þeim á­bendingum sem úr­skurðar­nefndin beindi til sveitar­fé­lagsins þegar fyrri á­kvörðun um synjun var felld úr gildi. Í þeim úr­skurði má reyndar hálf­partinn lesa að nefndin sé að beina því til sveitar­fé­lagsins að veita leyfið fyrir loft­línu.

En liggur ekki í augum uppi að henni verði synjað aftur ef þið eruð að breyta núna aðal­skipu­lagi þar sem þið eruð að banna loft­línu?

„Sko það má ekki gleyma því að sveitar­stjórnin getur markað sér stefnu að sjálf­sögðu. En að sama skapi þarf hún að fara að lögum og gæta að þeim sjónar­miðum sem okkur er gert að upp­fylla sam­kvæmt gildandi lögum,“ segir Ás­geir.

Það verði síðan að koma í ljós þegar þar að kemur hver niður­staðan verði þegar búið er að fara yfir um­sóknina á ný.

„En það er alveg rétt sem þú segir að af­staðan er alveg ljós. En við, stjórn­sýslan og sveitar­stjórnin hér, munum að sjálf sögðu axla á­byrgð hvað varðar mál­efna­lega um­fjöllun á þessa um­sókn.“


Tengdar fréttir

Fram­­kvæmd Suður­ne­sja­línu 2 í upp­­­námi

Fyrir­huguð fram­kvæmd Lands­nets á Suður­ne­sja­línu 2 er komin í upp­nám að sögn upp­lýsinga­full­trúa Lands­nets, Steinunnar Þor­steins­dóttir. Þetta kemur þeim sem fylgst hafa með málinu kannski ekki á ó­vart en það hefur farið fram og til baka í kerfinu síðan árið 2008, þegar leggja átti svo­nefnda Suð­vestur­línu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×