Innlent

Kol­brún stefnir á bæjarstjórann í Mosó

Atli Ísleifsson skrifar
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir. Aðsend

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs og formaður fræðslunefndar, hefur tilkynnt að hún sækist eftir 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor. Prófkjör fer fram þann 5. febrúar næstkomandi.

Í tilkynningu kemur fram að Kolbrún hafi setið í bæjarstjórn frá árinu 2014 og áður verið fyrsti varabæjarfulltrúi 2010 til 2014. Auk þess hefur Kolbrún setið í stjórn skíðasvæðanna og situr nú fyrir hönd Mosfellsbæjar í stjórn Sorpu byggðarsamlags. 

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri hefur leitt lista Sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu síðustu ár en tilkynnti á dögunum að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. Mosfellsbær hefur verið öflugt vígi Sjálfstæðisflokksins og hlaut tæp fjörutíu prósent í kosningunum 2018.

Kolbrún var formaður fjölskyldunefndar frá 2010 til 2016, en hún er kennari og lýðheilsufræðingur að mennt og stundar nú nám í Stjórnun menntastofnana við Háskóla Íslands. 

„Ég hef búið í Mosfellsbæ með hléum í 45 ár, gekk í Varmárskóla og Gaggó Mos. Ég á þrjá syni, einn í heimahúsi, og tveir eldri búa einnig hér í Mosó með sínum fjölskyldum. Mitt hjarta slær í Mosó og brenn ég fyrir þeim verkefnum sem ég tek að mér,” er haft eftir Kolbrúnu.

Hún hafnaði í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ í síðasta prófkjöri en sækist nú eftir stuðningi í 1. sætið. „Sveitarstjórnarmálin eru mér afar hjartfólgin og hef ég nú mikla reynslu og þekkingu á málaflokkum sveitarfélaga en það er mikilvægt þegar kemur að því að standa vörð um hagsmuni Mosfellsbæjar. Ég hef mikla löngun til að vinna með góðu og jákvæðu fólki að framtíðarmálefnum Mosfellinga,“ er haft eftir Kolbrúnu.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.