Innlent

Dýrasta vara Góða hirðisins frá upp­hafi er slitinn stóll

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Það hefur þurft gott auga fyrir hönnunarvörum til að kveikja á því að stóllinn væri gömul hönnunarvara. 
Það hefur þurft gott auga fyrir hönnunarvörum til að kveikja á því að stóllinn væri gömul hönnunarvara.  vísir/sigurjón

Danskur hönnunar­stóll er orðin dýrasta vara sem Góði hirðirinn hefur sett á sölu frá upp­hafi. Ger­semin barst nytja­vöru­markaðnum ó­vænt í gám frá Sorpu og gerir rekstrar­stjóri hennar ráð fyrir að eig­andi stólsins hafi ekki áttað sig á hverju hann væri að henda.

Það heyrir auð­vitað til al­gerrar undan­tekningar að í nytja­vöru­markaðnum séu seldar vörur í dýrari kantinum. Því brá mörgum nokkuð í brún þegar þeir sáu verðið á stól, sem er ný­kominn í verslun Góða hirðisins. Hann kostar hálfa milljón króna.

„Þetta er myndi ég segja dýrasta varan sem við höfum fengið og við fórum í mikla rann­sóknar­vinnu þegar hann barst okkur í gám. Og hann er að seljast er­lendis á svona 750 til 850 þúsund,“ segir Ruth Einars­dóttir, rekstrar­stjóri Góða hirðisins.

Stóllinn margumtalaði í öllu sínu veldi. Áklæðið fremst á setunni er örlítið slitið.vísir/sigurjón

Fór á 51 þúsund fyrir tveimur árum

Stóllinn er nefni­lega dönsk hönnunar­vara frá 6. ára­tugnum. Og við laus­lega leit á netinu koma upp er­lendar sölu­síður sem selja gerð af stólnum með leður­á­klæði á 800 til 900 þúsund krónur.

Frétta­stofa leitaði hins vegar í kjöl­farið ráð­gjafar hjá danska upp­boðs­húsinu Lauritz sem sagði okkur að stóll af þessari gerð hefði verið seldur á upp­boði fyrir tveimur árum á 2.600 danskar krónur, sem gera 51 þúsund ís­lenskar krónur.

Það er dá­lítið ó­dýrara en í Góða hirðinum. Þó má ekki gleymast að á­góðinn af sölunni fer í gott mál­efni.

„Grunn­mark­miðið er að koma sem mestu í endur­not en hitt er að styðja við líknar­fé­lög. Þannig þetta gefur okkur tæki­færi til að bústa að­eins upp reksturinn hjá okkur og geta bara látið gott af okkur leiða til líknar­fé­laganna,“ segir Ruth.

Ruth Einarsdóttir er verslunarstjóri Góða hirðisins. Hún tók við starfinu fyrir þremur árum en á þeim tíma hefur endursöluhlutfall verslunarinnar rokið upp úr 26 prósentum upp í 65 prósent. vísir/sigurjón

Fólk hefur þegar sýnt stólnum á­huga og margir haft sam­band við Góða hirðinn vegna hans.

„Já, það er búið að vera mikill áhugi. Okkur hafa borist nokkrir tölvupóstar þar sem fólk er með fyrirspurnir og vill fá að vita meira.“

En ætli eig­andinn hafi vitað hverju hann væri að henda?

„Mér finnst það mjög ó­lík­legt að hann hafi áttað sig á því hvað þetta væri. Þetta er náttúru­lega bara glæsi­legur stóll. En það eru mikil verð­mæti í þessu,“ segir Ruth.


Tengdar fréttir

Góði hirðirinn á­fram á Hverfis­götu

Rekstri verslunar Góða hirðisins á Hverfisgötu í Reykjavík verður fram haldið, en verslunin var opnuð í tilraunaskyni síðastliðinn nóvember þar sem kannað var hvort rekstrargundvöllur væri fyrir hendi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.