Innlent

Helgi Pé: Fáir sem geti nýtt sér tvö­földun frí­tekju­marks at­vinnu­tekna

Atli Ísleifsson skrifar
Helgi Pétursson er formaður Landssambands eldri borgara, segir að aldrei hafi jafn mörgum verið lofað jafn miklu jafn oft eins og eldra fólki á Íslandi.
Helgi Pétursson er formaður Landssambands eldri borgara, segir að aldrei hafi jafn mörgum verið lofað jafn miklu jafn oft eins og eldra fólki á Íslandi. Stöð 2

Frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega verður hækkað í tvö hundruð þúsund krónur á mánuði um næstu áramót. Mun það þar með tvöfaldast.

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, segir að sér þyki ekki mikið til þeirra aðgerða koma sem ríkisstjórnin boðar í fjárlagafrumvarpinu og snúi að eldri borgurum. „Aldrei hefur jafn mörgum verið lofað jafn miklu jafn oft eins og eldra fólki á Íslandi. Efndirnar hafa hins vegar verið litlar. Mér sýnist að þetta sé að fara í svipaðan farveg og áður og vanti mikið upp á.“

Tvöföldun frítekjumarks atvinnutekna ellilífeyristekna var eitt af því sem ný ríkisstjórn boðaði að yrði gert þegar nýr stjórnarsáttmáli var kynntur um helgina. Kostnaður vegna tvöföldunarinnar er áætlaður um 540 milljónir króna.

„Það er mikið um að „horft skuli til“ hins og þessa. Mér sýnist að menn ætli í ár að láta nægja að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna, en að ekkert annað sé í hendi. Síðan er talað um endurskoðun á almannatryggingakerfinu og að „fari fram“ hitt og þetta. Það er ekkert nýtt í þessu. En það á eftir að koma í ljós hvaða efndir fylgja þessum orðum,“ segir Helgi.

Úr kynningu fjármálaráðherra í morgun.

Ætti frekar að líta til lífeyristekna

Varðandi þessa tvöföldun frítekjumarks segir Helgi að það séu tiltölulega fáir sem geti nýtt sér hana. Hann segir stóran hluta lífeyrisþega lifa á tekjum undir lágmarkslaunum. „Það er ekki enn farið að hífa frítekjumark lífeyristekna upp að lágmarkslaunum. Það er svo stór hluti sem er ekki að nýta sér þennan atvinnuteknaafslátt.

Þetta lítur vel út en ef menn hefðu hækkað á sama stað frítekjumörk lífeyristekna þá værum við að tala um aðra hluti. Það eru miklu fleiri sem gætu nýtt sér slíkt. Þetta lítur út eins og það sé mikið hagsmunamál en það eru fáir sem geta nýtt sér þetta. Þetta eitt og sér gerir ekki mikið,“ segir Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.