Innlent

Furðar sig á að VG af­hendi „í­haldinu“ um­hverfis- og loft­lags­málin

Kjartan Kjartansson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, á fundi samfylkingarfólks árið 2014.
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, á fundi samfylkingarfólks árið 2014. Vísir/Stöð 2

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, furðar sig á að Vinstri græn skuli afhenda „íhaldinu“ umhverfis- og loftslagsmálin í nýrri ríkisstjórn. Þá gagnrýnir hún að flokkarnir fjölgi ráðuneytum, þvert á tillögu í rannsóknarskýrslu Alþingis um hrunið.

Vinstri græn afsöluðu sér stól umhverfisráðherra til Sjálfstæðisflokknum í nýrri ríkisstjórn flokkanna tveggja og Framsóknarflokksins sem var formlega kynnt í gær. Ráðuneytum var fjölgað um eitt, þau verða nú tólf en voru ellefu áður.

Þessa verkaskiptingu gagnrýnir Jóhanna, sem leiddi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á eftirhrunsárunum 2009 til 2013, á Facebook-síðu sinni í dag. Hún bendir á að í rannsóknarskýrslu Alþingis sem kom út árið 2010 hafi verið lagt til að ráðuneytum væri fækkað og þau stækkuð því mörg þeirra væru of lítil og vanmáttug til að takast á við verkefni sín.

Eftir því hafi ríkisstjórn Jóhönnu farið og fækkað ráðherrum niður í átta.

„Þessi ríkisstjórn undir forystu VG gefur þessari tillögu langt nef og bæði [klýfur] upp ráðneyti og fjölgar,“ skrifar Jóhanna.

Íhaldið barist gegn rammaáætlun í áratug

Jóhanna beinir einnig spjótum sínum að því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið nýtt orku- og loftslagsmálaráðuneyti. 

Segir hún það vekja furðu að VG hafi afhent „íhaldinu“ umhverfis- og loftslagsmál í ljósi þess að það hafi barist gegn rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda kröftuglega í heilan áratug.

„Og ekki síður að íhaldið mun einnig fara með loftslagsmálin, en aðgerðir á því sviði munu geta ráðið úrslitum um hvort lífvænlegt verður á jörðinni í náinni framtíð,“ skrifar fyrrverandi forsætisráðherra.

Stefnt er að því að ljúka rammaáætlun á þessu kjörtímabili í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.