Í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands segir að vatnamælingamenn hafi verið að störfum á bökkum Gígjukvíslar í dag. Rétt fyrir klukkan fimm í dag hafi rennsli árinnar mælst 240 rúmmetrar á sekúndu.
Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum gæti hámarksrennsli hlaupsins orðið um 5.000 rúmmetrar á sekúndu þó Veðurstofan fullyrði ekkert um að til hlaups komi.
Samkvæmt eldri tilkynningu Veðurstofunnar myndi Grímsvatnahlaup upp á 5.000 rúmmetra á sekúndu ekki hafa mikil áhrif á mannvirki.
Þrátt fyrir að hlaupórói hafi mælst á svæðinu hefur rafleiði vaxið mjög hægt í Gígjukvísl og ekkert gas hefur mælst.
Samkvæmt mælingum Jarðvísindastofnunar Háskólans hefur um 0,1 rúmkílómetri vatns þegar runnið úr Grímsvötnum eða um tíundi hluti þess vatns sem var í vötnunum áður en íshellan tók að síga.
„Ekki er þó sjálfgefið að vötnin tæmist,“ segir í lok tilkynningar.