Innlent

Meirihluti telur ekki forsendur til ógildingar kosninganna

Kjartan Kjartansson skrifar
Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Formaður kjörbréfanefndar segir að meirihluti nefndarmanna telji ekki forsendur til að ógilda kosningarnar í Norðvesturkjördæmi. Ekkert hafi komið fram um að gallar hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Fulltrúi Pírata skrifar ekki undir greinargerð undirbúningskjörnefndar sem rannsakaði málið.

Fyrsta fundi kjörbréfanefndar lauk nú síðdegis. Birta átti tæplega hundrað blaðsíðna greinargerð undirbúningskjörnefndar um kosningarnar í Norðvesturkjördæmi fljótlega.

Að fundi loknum sagði Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það mat meirihluta fulltrúa í nefndinni að ekki væru forsendur til að ógilda úrslitin þar sem ekkert hafi komið fram sem sýni að gallar sem vissulega hafi verið á henni hefði haft áhrif á úrslitin.

Heimir Már Pétursson ræddi við nefndarmenn að loknum fundi.

Meirihlutaálit sé að verða til um framhaldið en Birgir sagðist búast við einu, tveimur eða þremur minnihlutaálitum. Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata í nefndinni, skrifaði ekki undir greinargerð undirbúningskjörnefndarinnar. Píratar vilja að Alþingiskosningarnar verði endurteknar á öllu landinu.

Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, sagði verkefni kjörbréfanefndar að ákveða hvort kjörbréf verði ógilt vegna deilnanna um talningu í Norðvesturkjördæmi. Það velti á því hvort að varðveisla kjörgagna þar hafi verið fullnægjandi. Kjörstjórn hafi gert athugasemd við það og vísað til nefndarinnar.

Sagði Svandís það liggja fyrir að varðveisla kjörgagna hafi ekki verið fullnægjandi og nefndinni hafi ekki tekist að fullvissa sig um að ekki hafi verið átt við þau.

Hún sagði að ólík afstaða Vinstri grænna annars vegar og fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins hefði ekki áhrif á ríkisstjórnarsamstarf þeirra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.