Innlent

„Frelsi til að sýkja aðra er rangsnúinn réttur“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í pontu í dag.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í pontu í dag. Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hvatti þingmenn til dáða er hann ávarpaði Alþingi við setningu þings í dag. Ræddi hann viðbrögð íslensk samfélags við kórónuveirufaraldrinum auk þess sem hann bað þingmenn að ræða kosti þess og galla að halda næstu Alþingiskosningar að hausti til. Þá sagðist hann vonast til þess að betur gengi nú að ráðast í umbætur á stjórnarskránni.

Alþingi kom saman klukkan hálf tvö í dag eftir eitt lengsta þinghlé síðari ára. Nýs þings bíður það verkefni að skera úr um hvaða þingmenn teljist löglega kjörnir til Alþingis, eftir þau álitamál sem komið hafa upp í tengslum við talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Kom Guðni stuttlega inn á þetta í upphafi ávarpsins.

„Eftirmál urðu í einu kjördæmi og samkvæmt stjórnarskrá okkar er það í höndum Alþingis að skera úr um hvort þingmenn þess séu löglega kosnir. Mikil er því ábyrgð alþingismanna, nú sem endranær,“ sagði Guðni.

Öfgar og ýkjur fylgi frjálsum skoðanaskiptum

Ræddi Guðni einnig um kórónuveirufaraldurinn og þau áhrif sem hann hefur haft á íslenskt samfélag, og hvernig samfélagið hafi brugðist við faraldrinum. Kom Guðni inn á þær skiptu skoðanir sem myndast hafa á réttmæti þeirra sóttvarnaraðgerða sem gripið hefur verið til hér á landi.

„Sem fyrr sýnist sitt hverjum um sóttvarnir. Vissulega hefur hin eina rétta leið ekki alltaf verið valin – skárra væri það nú, enda oft úr vöndu að ráða og auðvelt að vera vitur eftir á,“ sagði Guðni.

Sóttvarnarreglur settu sinn svip á þingsetninguna.Vísir/Vilhelm

Minntist hann á að umræður í vandasömum málum væru oft einmitt vandasamar og að umræðan væru oft fljót að snúast um öfgar og ýkjur.

„Öfgar og ýkjur geta fylgt frjálsum skoðanaskiptum en við höfum borið gæfu til þess, íbúar þessa lands, að standa að mestu saman andspænis sameiginlegri vá. Sú eining hefur byggst á almennri skynsemi, almennri umræðu, almennri þekkingu og almennu trausti,“ sagði Guðni.

Minnti hann einnig á að löngu áður en kórónuveirufaraldurinn hafi komið til landsins hafi sóttkví og bólusetningum verið beitt, þó á minni skala en nú.

„Við, sem höfum notið þess að eignast börn, munum flest eftir bólusetningum sem verja þau og annað fólk gegn skæðum sóttum. Við munum jafnvel líka að fengju þau hlaupabólu eða magakveisu þótti sjálfsögð skylda að halda þeim um skeið í sóttkví, fjarri leikskóla eða dagvistun. Frelsi til að sýkja aðra er rangsnúinn réttur,“ sagði Guðni.

Skoði kosti þess og galla að hafa kjördag að hausti

Kórónuveirufaraldurinn var þó ekki það eina sem forsetinn hafði að segja í ávarpinu. Hvatti hann þingmenn til að ræða kosti þess og galla að halda næstu Alþingiskosningar að vori til, eftir þrjár í röð að hausti til.´

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfsaldursforseti Alþingis, stýrði fyrsta fundi Alþingis að þessu sinni.Vísir/Vilhelm

„Það kjörtímabil, sem nú er hafið, getur staðið til seinni hluta september að fjórum árum liðnum. Ræða þarf kosti þess og galla að hafa kjördag að hausti en ekki að vori eins og venja hefur verið, ekki síst hvaða áhrif það hefur á störf Alþingis, þungamiðju hins pólitíska valds.“

Þá hvatti hann þingmenn til þess að ræða og ráðaðst í umbætur á stjórnarskrá Íslands, eftir að ekkert gekk í þeim efnum á síðasta kjörtímabili.

„Vonandi gengur betur á þessu kjörtímabili að ræða og ráðast í skynsamlegar umbætur á stjórnarskrá Íslands, rétt eins og henni hefur áður verið breytt í tímans straumi. Má þá sem fyrr horfa til ákvæða um umhverfi, auðlindir og íslenska tungu, auk breytinga á þjóðhöfðingjakafla stjórnarskrárinnar. Verkefni hér næstu daga benda líka til þess að í fleira megi rýna í þessum efnum.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.