Innlent

Mega skoða gögn á síma meints fíkniefnasala

Samúel Karl Ólason skrifar
visir-img
Vísir/Vilhelm

Landsréttur staðfesti í vikunni úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu mætti rannsaka gögn á síma manns sem grunaður er um sölu fíkniefna. Dómurinn segir lagaskilyrðum fullnægt og rökstuddur grunur sé fyrir því að eigandi símans sé fíkniefnasali og hafi gerst sekur um brot sem geti varðað fangelsisvist.

Málið má rekja til 10. ágúst þegar lögreglu barst ábending um fíkniefnasölu. Þegar lögregluþjóna bar að garð fundu þeir mikla kannabislykt og hurð að bílskúr galopna. Þar inni voru tveir menn og gaf annar þeirra lögreglu munnlega heimild til að leita í húsnæðinu. Þar fundust fíkniefni og sum söluumbúðum.

Þar fundust einnig lyf, peningar sem taldir eru vera ágóði af fíkniefnasölu og tveir farsímar.

Húsráðandi sagði fíkniefnin til einkanota og sagði að peningana sem fundust í peningaskáp í gólfi húsnæðisins og í próteindollu hefði hann fengið í bætur frá aðila eða stofnun sem ekki er nefnd í dóminum.

Símar í eigu beggja mannanna voru haldlagðir en á þeim mátti sjá skilaboð í forritinu Telegram sem er samskiptaforrit sem dulkóðar skilaboð manna á milli.

Gögn af símanum sem húsráðandi átti voru afrituð og lögreglan hefur viljað rannsaka þau. Eigandi símans höfðaði þó mál til að koma í veg fyrir það. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur var þó lögreglunni í hag og Landsréttur staðfesti það í vikunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×