Lífið

Taylor trú­lofast Taylor

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Eru þetta tilvonandi hjónin Taylor Lautner og Taylor Lautner?
Eru þetta tilvonandi hjónin Taylor Lautner og Taylor Lautner? Instagram/Taylor Lautner

Leikarinn og Twilight-stjarnan Taylor Lautner er trúlofaður kærustu sinni sem heitir því skemmtilega nafni Taylor Dome. Hún er þó alltaf kölluð Tay, enda gæti annað valdið ruglingi.

Dome starfar sem hjúkrunarfræðingur og hefur átt í sambandi við leikarann í nokkur ár. En parið greindi opinberlega frá sambandi sínu árið 2018.

Taylor og Taylor greindu bæði frá trúlofuninni á Instagram og birtu sitthvora myndina af bónorðinu sem fór fram við afar rómantískar aðstæður þar sem allt var fullt af kertum og rauðum rósum. Þá hékk ljósaskilti á veggnum sem á stóð „Lautner“.

„Og rétt sí svona rættust allar mínar óskir,“ skrifar Twilight-stjarnan undir myndinni.

Aðdáendur hafa velt því fyrir sér hvers vegna Lautner lét hengja skiltið upp en í Bandaríkjunum er rík hefð fyrir því að konur taki upp seinna nafn eiginmannsins þegar þau gifta sig. Ef Dome ákveður að fylgja þeirri hefð munu hjónin bæði bera nafnið Taylor Lautner.

Þess má til gamans geta að Lautner átti í ástarsambandi við söngkonuna Taylor Swift árið 2008 og virðist hann því vera með ákveðna týpu.

Netverjar hafa skemmt sér vel yfir þessu nafnagríni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.