Innlent

Faldi marijúana í verk­færa­skáp: Gekk í gildru lög­reglu sem var skrefi á undan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið dæmdur í átján mánaða fangelsi, þar af eru fimmtán mánuður skilorðsbundnir, fyrir að hafa reynt að smygla þrettán kílóum af marijúana til landsins í verkfæraskáp.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að maðurinn reyndi að flytja inn efnin frá Kanada til Íslands í verkfæraskáp sem sendur var frá Kanada til Íslands fyrir þremur árum síðan.

Sendingin var hins vegar stöðvuð í Þýskalandi þar sem tollgæsluyfirvöld þar í landi létu lögregluna á Íslandi vita af sendingunni.

Lögreglan hér á landi tók á móti skápnum og kom gerviefnum fyrir í staðinn fyrir fíkniefnin. Eftir að karlmaðurinn hafði sótt skápinn hjá DHL í Reykjavík elti lögregla hann að heimili hans.

Þar kom hún að manninum vera að taka upp pakkann. Karlmaðurinn játaði brot sitt fyrir dómi, en auk fíkniefnanna lagði lögregla hald á tvo iPhone síma, eina Apple fartölvu og eina Dell fartölvu ásamt öðrum munum sem tengdust málinu.

Í dómi Héraðsdóms er tekið fram að frá því að málið komi upp hafi umræddur karlmaður stofnað fjölskyldu og leitast við að breyta fyrra líferni, eftir að brotið var framið.

Að þessu virtu, auk verulegra tafa sem urðu á málinu, þótti héraðsdómi hæfilegt að skilorðsbinda fimmtán mánuði af átján mánaða fangelsisdómi sem maðurinn hlaut fyrir smyglið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×