Voru björgunarsveitir meðal annars kallaðar út þegar hjólhýsi fauk á hliðina og bíll færðist til í hvassviðrinu. Mest var þó um algeng foktjón þar sem björgunarsveitarmenn eltust til að mynda við þakklæðningar, skjólveggi og vinnupalla.
Gular veðurviðvaranir eru í gildi í flestum landshlutum og gilda þær síðustu fram til eitt eftir miðnætti.
„Þetta gerðist greinilega frekar skarpt hérna á höfuðborgarsvæðinu því þetta kom allt í einu,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Rólegt fyrr í dag
Um hálf fjögur í dag byrjuðu tilkynningarnar að berast til Neyðarlínu og voru þá flestar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu kallaðar út. Fram að því höfðu fá verkefni komið inn á borð Landsbjargar.
„Það komu um tæplega tuttugu verkefni á um klukkutíma en síðan þá hefur lítið bæst við og mér heyrist nú að veðrið hafi að einhverju leyti gengið niður hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Davíð. Hann hvetur fólk til að gæta að lausamunum og kynna sér aðstæður áður en lagt er af stað í langferðir.
Rétt fyrir klukkan hálf sex voru svo björgunarsveitir á Ólafsfirði og Siglufirði kallaðar út vegna garðskúrs sem hafði fokið. Sveitirnar voru þó fljótar að tryggja öryggi á vettvangi og hafa ekki fleiri verkefni bæst við á svæðinu eftir það.