Innlent

Undir­búnings­nefnd skili af sér til­lögum til kjör­bréfa­nefndar á þriðju­dag

Heimir Már Pétursson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Birgir Ármannsson, formaður undirbúningskjörbréfanefndar, segist gera ráð fyrir að nefndin muni skila af sér tillögum til kjörbréfanefndar þegar hún verður kosin á þriðjudag.
Birgir Ármannsson, formaður undirbúningskjörbréfanefndar, segist gera ráð fyrir að nefndin muni skila af sér tillögum til kjörbréfanefndar þegar hún verður kosin á þriðjudag. Vísir/Vilhelm

Undirbúningskjörbréfanefnd átti langan fund í dag en nú eru aðeins fimm dagar þar til Alþingi kemur saman til að leysa úr þeirri óvissu sem ríkir um útgáfu kjörbréfa þingmanna í Norðvesturkjördæmi.

Þing mun koma saman á þriðjudag til að kjósa í formlega kjörbréfanefnd, sem mun taka tillögur undirbúningsnefndarinnar til skoðunar. Fréttastofa greindi frá því fyrr í dag að undirbúningsnefndin hefði til skoðunar tvær tillögur til úrlausnar á kosningamáli Norðvesturkjördæmis.

„Við höfum auðvitað verið að stilla upp mismunandi tillögum og verið að gera það í sameiningu. Við erum að vinna með nokkra mismunandi hluta í greinagerðinni, málsatvikalýsingu sem er ennþá í vinnslu og við erum að fullklára hana,“ sagði Birgir Ármannsson, formaður undirbúningskjörbréfanefndar, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Svo höfum við verið að ræða þessa matskenndu þætti sem bæði snúa að því hvernig eigi að meta málavextina og svo líka að meta þessi lagalegu atriði. Við höfum auðvitað reynt að vinna þetta að sem mestu leyti í samvinnu. Það sem hins vegar á eftir að koma í ljós og er ennþá til umræðu er það hvort nefndarmenn komast að sameiginlegri niðurstöðu eða hvort þeir geri tvennskonar eða jafnvel fleiri tillögur,“ sagði Birgir.

Umfang verkefnis undirbúningsnefndarinnar er eins og við má búast gríðarlegt en búast má þó við því að nefndin nái að skila af sér tillögunum áður en þing kemur saman. 

„Við auðvitað miðum við það að vera búin að ljúka af okkur þannig að undirbúningsnefndin geti skilað fullbúnu plaggi til kjörbréfanefndar. Kjörbréfanefndin tekur það síðan til yfirferðar og gerir sínar endanlegu tillögur á þeim grundvelli en undirbúningsnefndin mun auðvitað geta skilað sinni vinnu til kjörbréfanefndarinnar þegar hún hefur verið kosin á þriðjudaginn.“

Þegar búið verður að kjósa í kjörbréfanefnd á þingfundi á þriðjudag verður væntanlega gert hlé á fundinum og þing kemur aftur saman á fimmtudag í næstu viku. Þá ætti atkvæðagreiðslan að geta farið fram. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.