Innlent

Skoða hvort átt hafi verið við hjólin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slysið varð á göngustíg við Sæbraut upp úr klukkan átta í morgun. 
Slysið varð á göngustíg við Sæbraut upp úr klukkan átta í morgun.  Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun við rannsókn sína á alvarlegu slysi við Sæbraut í morgun skoða hvort átt hafi verið við farartækin að því leyti að hægt væri að aka um á þeim yfir leyfilegum hámarkshraða.

Tveir karlmenn voru fluttir með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans upp úr klukkan átta í morgun eftir að rafhlaupahjól og rafmagnsvespa skullu saman á reiðhjólastíg við Sæbraut nærri Kringlumýrarbraut.

Dimmt var á þessum tíma í morgun og blautt sömuleiðis. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er skyggni enn verra í rökkrinu þegar malbikið er blautt.

Lögregla telur ekki tímabært að upplýsa um líðan þeirra sem lentu í slysinu. Ljóst er að slysið er mjög alvarlegt enda var Rannsóknarnefnd samgönguslysa boðuð á vettvang slyssins.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir málið í rannsókn. Hann segir meðal annars til skoðunar hvort átt hafi verið við hjólin til að auka hraða þeirra.

Leyfilegur hámarkshraði rafhlaupahjóla hér á landi er 25 kílómetrar á klukkustund og má aka þeim á göngustígum.

Hvað rafmagnsvespur varðar þá má aka þeim á göngustígum ef hámarkshraði þeirra er 25 kílómetrar á klukkustund. Sé hraðinn meiri á að aka þeim á götunni.


Tengdar fréttir

Mjög alvarlegt slys á göngustíg við Sæbraut

Tveir voru fluttir slasaðir á slysadeild Landspítalans eftir árekstur tveggja farartækja á göngustíg við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar á níunda tímanum í morgun. Þetta staðfestir varðstjóri hjá slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.