Innlent

Að minnsta kosti sjö fluttir á bráða­mót­töku í gær­kvöldi og nótt vegna slysa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bráðamóttaka Landspítalans í Fossvogi.
Bráðamóttaka Landspítalans í Fossvogi. Vísir/Vilhelm

Tveir menn voru vistaðir í fangageymslum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðin í gær sökum ástands. Annar var handtekinn í Hlíðahverfi og þar sem lögregla gat ekki komist að því hvar hann býr var hann fluttur á lögreglustöð.

Hinn maðurinn var fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar um klukkan 22.30 en í tilkynningu lögreglu kemur ekki fram hvers vegna. Síðar um nóttina voru aftur höfð afskipti af manninum og var hann þá fluttur á lögreglustöð þar sem hann gat ekki gefið upp dvalarstað.

Rétt fyrir klukkan 22 var tilkynnt um bílveltu í Garðabæ. Ökumaðurinn komst sjálfur út en farþeginn sat fastur. Sjúkra- og tækjabifreið slökkviliðsins var send á vettvang og tókst að ná farþeganum út.

Bæði ökumaður og farþegi voru fluttir á bráðamóttöku en ekki er vitað um meiðsl. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um slys í hesthúsahverfi í Garðabæ en þar hafði kona fallið af baki þegar hún var að temja hest. Var hún með verk á höfði og í kviði og var flutt á bráðamóttöku.

Þá var ekið á dreng á rafmagnshlaupahjóli í Kópavogi og var hann fluttur á bráðamóttöku. Samkvæmt forráðamanni drengsins var hann marinn og aumur en ekki brotinn.

Þrír voru einnig fluttir á bráðamóttöku rétt fyrir miðnætti eftir að ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og rann á ljósastaur. Flytja þurfti bifreiðina af vettvangi en ekki er vitað um meiðsl á fólki.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.