Innlent

Starfs­fólk Eflingar ótta­slegið og finnst Sól­veig Anna gefa opið skot­leyfi á það

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sólveig Anna sagði af sér formennsku fyrir Eflingu í gær eftir að hafa gefið starfsliði félagsins afarkosti.
Sólveig Anna sagði af sér formennsku fyrir Eflingu í gær eftir að hafa gefið starfsliði félagsins afarkosti. vísir/vilhelm

Yfir­lýsing sem Sól­veig Anna Jóns­dóttir, frá­farandi for­maður Eflingar, sendi frá sér á Face­book í gær hleypti illu blóði í marga starfs­menn stéttar­fé­lagsins. Á starfs­manna­fundi sem haldinn var í morgun lýstu margir ó­á­nægju sinni með það hvernig hún sakaði starfsliðið um að hafa hrakið sig úr starfi. 

Sumir eru hrein­lega ótta­slegnir eftir hörð við­brögð og hálf­gerðar hótanir margra stuðnings­manna Sól­veigar Önnu úr kommenta­kerfinu.

Mikil ólga hefur verið innan starfs­liðsins í allan dag en frétta­stofa hefur rætt við nokkra þaðan. Enginn starfsmannanna er til­búinn til að stíga fram undir nafni í bili, enda segja þeir al­gjöra ó­vissu ríkja innan sam­bandsins til dæmis um það hverjir haldi um stjórnar­taumana ein­mitt núna.

„Opið skotleyfi á starfsmenn“

Hvorki Sól­veig Anna né Viðar Þor­steins­son, sem hefur sagst ætla að fylgja Sól­veigu út og segja upp, voru við­stödd starfs­manna­fundinn heldur var þar al­mennt starfs­fólk og milli­stjórn­endur.

Sam­kvæmt heimildum frétta­stofu var færsla Sól­veigar Önnu mikið rædd á fundinum og fæstir sáttir með hana og fannst hún þar „gefa opið skot­leyfi á starfs­menn“ eins og einn, sem sat fundinn, komst að orði.

„Mér þykir það ó­trú­legt að það sé starfs­fólk Eflingar sem í reynd hrekur mig úr starfi, með því að leyfa and­stæðingum fé­lagsins að hossa sér á ýkjum, lygum og rang­færslum um mig og sam­verka­fólk mitt. Starfs­fólk Eflingar hefur kosið að svipta mig því vopni sem hefur gert mér mögu­legt að leiða sögu­lega og árangurs­ríka bar­áttu verka- og lág­launa­fólks síðustu ár, mann­orði mínu og trú­verðug­leika,“ segir Sól­veig Anna meðal annars í færslunni í gær.

Sól­veig Anna hefur ekki viljað svarað í­trekuðum sím­tölum frá blaða­mönnum frétta­stofu hvorki í gær né í dag.

Grátið og margir smeykir

Færsla Sól­veigar Önnu hefur vakið hörð við­brögð margra og hafa margir látið starfs­fólk Eflingar sem „hrakti hana úr starfi“, eins og hún kemst að orði, heyra það. Má sjá viðbrögðin á samfélagsmiðlum og athugasemdakerfum vefmiðlanna.

Margt starfs­fólkið lýsti því á starfs­manna­fundinum í morgun hvernig það fyndi hrein­lega fyrir ótta vegna sumra harð­orðra kommentanna og þá hefur starfs­liðinu borist nokkrir orð­ljótir póstar þar sem skömmum er ausið yfir það. Nokkrir brustu hreinlega í grát á fundinum og eftir fundinn. Andrúmsloftið á skrifstofum stéttarfélagsins hefur verið þrungið í dag.

Arnar Guð­munds­son, eigin­maður Guð­rúnar Katrínar Bryn­dísar­dóttur, kjara­mála­full­trúa hjá Eflingu, sagði til dæmis á Face­book í morgun að kynt hefði verið undir reiði og for­dæmingu í net­heimum vegna þessa máls og að það væri „enn skugga­legri hlið sem snýr að per­sónu­legu öryggi starfs­fólksins.“ 

Hvorki náðist í hann né Guð­rúnu Katrínu við gerð fréttarinnar.

Vildu ekki afneita upplifun samstarfsmanna sinna

Starfs­fólkinu þykir mörgu skýring Sól­veigar Önnu á málinu „hreint út sagt fá­rán­leg“.

Málið hófst þannig að nokkrir starfs­menn leituðu til trúnaðar­manna vegna upp­lifana sinna á vinnu­staðnum og þá sér­stak­lega vegna ó­á­nægju sinnar með stjórnar­hætti Sól­veigar Önnu og Viðars Þor­steins­sonar.

Einn starfs­maðurinn sagði við blaða­mann í dag að margir hefðu verið hræddir við að tjá sig, and­mæla þeim eða bera upp hug­myndir á fundum því það hefði áður gerst að þeir sem hefðu gert það væru reknir úr starfi skömmu síðar. Sá sami sagði það þá oft hafa gerst að Sól­veig missti stjórn á skapi sínu og „marg­oft sparkað í hurðar og gargað“.

Í kjöl­farið hafi trúnaðar­mennirnir óskað eftir fundi með stjórn­endunum en þeir lattir til þess af stjórn­endunum. Í kjöl­farið hafi þeir sent erindi til þeirra þar sem þessum frá­sögnum starfs­mannanna var lýst.

Það hafi síðan komið eins og þruma úr heið­skíru lofti þegar Sól­veig steig skyndi­lega fram á starfs­manna­fundi síðasta föstu­dag og gaf starfs­liðinu afar­kosti; að allt starfs­liðið lýsti yfir stuðningi við hana og drægi þessar sögur til baka eða að hún myndi hætta.

„Hvernig á ein­hver al­mennur starfs­maður sem er kannski ekki inni í málinu eða ný­byrjaður að lýsa því yfir að hann trúi ekki sögum sem aðrir starfs­menn hafi sent á trúnaðar­menn sína? Þú getur ekki tekið þátt í að af­neita upp­lifun annarra starfs­manna eða ein­hverju sem þú ert kannski ekki inn í eða veist ekkert um,“ sagði einn við frétta­stofuna um þann fund.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.