Lífið

„Sjöundi vinurinn“ James Michael Tyler látinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tyler var þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Gunther.
Tyler var þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Gunther. Getty/Paul Zimmerman

James Michael Tyler, leikarinn sem er þekktastur fyrir að leika kaffihúsaþjóninn Gunther í Friends, er látinn. Tyler, sem var 59 ára, lést úr blöðruhálskirtilskrabbameini.

Samkvæmt yfirlýsingu frá umboðsmanni Tyler lést hann friðsamlega á heimili sínu í Los Angeles í morgun. „Ef þú hittir hann, þá áttir þú vin fyrir lífstíð,“ sagði í yfirlýsingunni. „Hann lætur eftir sig eiginkonu sína Jennifer Carno; ást lífs hans.“

Tyler greindist með blöðruhálskirtilskrabbamein árið 2018, sem breiddist seinna út í bein. Hann var ófeiminn við að ræða veikindi sín og hvatti karlmenn til að vera meðvitaðir um sjúkdóminn og fara í blóðprufu.

Gunther var ein ástsælasta aukapersónuna í sjónvarpsþáttunum Friends. Hann var yfirmaður á kaffihúsinu Central Perk og umbar hinn arfaslaka starfskraft Rachel Green, enda yfir sig ástafanginn af henni.

„Heimurinn þekkti hann sem Gunther (sjöunda Vininn) en ástvinir Michael þekktu hann sem leikara, tónlistarmann, baráttumann og elskulegan eiginmann,“ sagði umboðsmaður Tyler.

Tyler birtist stuttlega í endurfunda-útgáfu Friends í síðasta mánuði þar sem hann sagði að þau tíu ár þegar hann átti aðkomu að þáttunum hefðu verið þau eftirminnilegustu á ævinni. 

Fyrir sjónvarsunnendur er skammt stórra högga á milli en á dögunum var greint frá því að Willie Garson, sem lék Stanford í þáttunum Sex and the City, hefði látist úr briskrabbameini.

Hann var 59 ára.

BBC hefur tekið saman eftirminnileg atriðin með Gunther.


Tengdar fréttir

Leikari úr Friends er með krabbamein

Leikarinn James Michael Tyler hefur tilkynnt að hann hafi greinst með fjórða stigs krabbamein í blöðruhálskirtli. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt í gamanþáttunum Friends en hann lék þjóninn Gunther.

Hafði barist við krabbamein í brisi

Leikarinn Willie Garson, sem lést á þriðjudag eftir stutt veikindi, hafði verið að berjast við krabbamein í brisi. Frá þessu greinir afþreyingarmiðillinn People. Fjölskylda leikarans er sögð hafa verið honum við hlið þegar hann lést.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.