Innlent

Stökk á svið með nokkurra daga fyrir­vara í stað leikara sem lenti í sótt­kví

Þorgils Jónsson skrifar
Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, segir leikhúsfólk fagna afléttingu Covid-takmarkana, en leikarinn Árni Þór Lárusson þurfti þó að stökkva inn í sýninguna Veislu í kvöld með nokkurra daga fyrirvara þar sem kollegi hans forfallaðist vegna sóttkvíar.
Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, segir leikhúsfólk fagna afléttingu Covid-takmarkana, en leikarinn Árni Þór Lárusson þurfti þó að stökkva inn í sýninguna Veislu í kvöld með nokkurra daga fyrirvara þar sem kollegi hans forfallaðist vegna sóttkvíar.

Leikhúsfólk fagnar þessa dagana þar sem gestir þurfa ekki lengur að bera grímu og slakað hefur verið á samkomutakmörkunum, en á fimmtudaginn var sýnt fyrir fullum sal, án grímu, í fyrsta sinn síðan í mars 2020.

Klippa: Stökk á svið vegna sóttkvíar

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins sagði í viðtali við fréttastofu í kvöld að tilfinningin hafi verið ótrúleg.

„Það var kynngimögnuð stund þegar salurinn reis á fætur og fagnaði Níu lífum. Þetta var brjálæðislega flott. Allt opið og engin hólfaskipting. Þetta er heilmikið frelsi og leikhúsfólk fagnar.“

Covid-vandræði hafa þó ekki alveg sagt skilið við leikhúsið, en leikarinn Árni Þór Lárusson, stökk á svið í leikritinu Veislu í kvöld með einungis nokkurra daga fyrirvara eftir að kollegi hans lenti í sóttkví. Hann var þó hvergi banginn við áskorunina.

„Þetta er bara frábært! Það er fullur salur í kvöld og ég get ekki beðið.“

Árni Þór fékk kallið í upphafi viku, og þurfti því að bregðast skjótt við.

„En ég er í svo góðum höndum hjá mótleikurum mínum að þetta getur ekki klikkað.“

En þetta hlýtur að hafa verið pínu stressandi.

„Já það er alltaf stress að fara á svið, en ekkert eitthvað of mikið. Þetta verður bara fjör!“

Brynhildur bætti þó við að lokum: „Ég get vottað að það eru bara rokkstjörnur sem geta svona lagað. Hann leikur, syngur, dansar og spilar á píanó í sýningunni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×