Innlent

Hvorki slakað á smitrakningu né sýnatöku

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir smitrakningu sérstaklega mikilvæga nú þegar verið er að aflétta samkomutakmörkunum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir smitrakningu sérstaklega mikilvæga nú þegar verið er að aflétta samkomutakmörkunum. Vísir/Egill

Sóttvarnalæknir sér hvorki fyrir sér að slakað verði á smitrakningu eða sýnatökum á næstunni þó verulega sé verið að létta á sóttvarnaaðgerðum. Verið er að skoða leiðir til að einfalda sóttkví.

Heldur færri greindust með kórónuveiruna innanlands í gær en í fyrradag eða 66. Ríflega helmingur þeirra sem greindist með veiruna var í sóttkví. Mörg börn, sem ekki eru bólusett þar sem þau eru yngir en tólf ára, hafa undanfarið greinst með veiruna. 

„Það er svona kannski 30-35% af þeim sem eru að greinast hafa verið börn undir tólf ára og það er töluvert miklu meira heldur en hefur verið í fyrri bylgjum þessa faraldurs“, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Á miðnætti var takmörkunum vegna veirunnar aflétt verulega innanlands. Nú mega tvö þúsund manns koma saman í stað fimm hundruð áður og grímuskyldu hefur verið aflétt. 

Þórólfur segir mikilvægt að fólk fari í sýnatöku nú þegar verið er að aflétta aðgerðum. 

„Ég held að við getum ekki farið að draga úr sýnatökum og hvetjum alla sem eru með einkenni til að fara í sýnatöku. Því að það eiginlega eina ráðið sem við höfum til þess að fylgjast með útbreiðslunni og sjá hvað er að gerast. Ég held að við verðum að gera það áfram. Við erum ekki komin á þann stað að við getum farið að hætta að taka sýni nema kannski bara hjá allra veikasta fólkinu.“

Þórólfur segir nokkuð um umgangspestir í samfélaginu núna. „Það er mjög mikið af öndunarfæraveirum að ganga núna og það getur verið erfitt að greina á milli hvað er hvað núna eins og staðan er. Sérstaklega hjá börnum.“

Hann segir jafnframt að áfram verði lögð mikil áhersla á smitrakningu og sóttkví. „Ég held að það sé svona þungamiðjan í því sem við erum að gera og höfum gert frá byrjun. Ég held að við verðum að halda því áfram ef að viljum á annað borð hafa einhvern heimil á útbreiðslu veirunnar.“

Verið er að endurskoða leiðbeiningar um sóttkví með það í huga að einfalda þær. „Gert það minna íþyngjandi en verið hefur. Það verður birt núna á næstunni.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.