Innlent

Leggja til sölu á em­bættis­bú­stað biskups og 23 fast­eignum til við­bótar

Atli Ísleifsson skrifar
Jarðir kirkjunnar eru nú 33 talsins, auk Skálholts og þar eru átján jarðir setnar prestum.
Jarðir kirkjunnar eru nú 33 talsins, auk Skálholts og þar eru átján jarðir setnar prestum. Vísir/Vilhelm

Starfshópur á vegum kirkjuþings hefur lagt til að átta jarðir í eigu Þjóðkirkjunnar og sextán eignir til viðbótar víðs vegar um land verði seldar sem liður í fjárhagslegri skipulagningu.

Meðal þeirra eigna sem lagt er til að verði seldar er embættisbústaður biskups Íslands sem stendur við Bergstaðastræti 75 þar sem Agnes M. Sigurðardóttir biskup býr nú. Er um 487 fermetra hús í hjarta miðbæjarins að ræða.

Morgunblaðið segir frá þessu, en halli á rekstri Þjóðkirkjunnar á síðasta ári nam 654 milljónum króna. 

Ráðist var í gerð vinnunnar í kjölfar 60. kirkjuþings þar sem skipaður var starfshópur til mótunar stefnu varðandi nánari útfærslu á fasteignastefnu þjóðkirkjunnar. 62. kirkjuþing fer fram dagana 23. til 27. október þar sem afstaða verður tekin til tillagna starfshópsins.

Jarðir kirkjunnar eru nú 33 talsins, auk Skálholts og þar eru átján jarðir setnar prestum. Þjóðkirkjan á auk þess 27 fasteignir sem nýttar eru sem íbúðarhúsnæði og af þeim eru tvær í útleigu til annarra en presta. Þessu til viðbótar eru svo Löngumýrarskóli og húsnæði í Grensáskirkju. Ótaldar eru lóðir úr jörðunum sem flestar eru leigðar á lóðarleigu.

Í skýrslu starfshópsins má sjá að þær átta jarðir Þjóðkirkjunnar sem lagt er til að verði seldar eru:

  • Árnes 1
  • Desjarmýri
  • Kolfreyjustaður
  • Miklibær
  • Skeggjastaðir
  • Syðra-Laugaland og Brúnir (úr Syðra-Laugalandi)
  • Voli

Aðrar eignir sem lagt er því til að seldar verði eru eftirtaldar:

  • Bergstaðastræti 75, Reykjavík
  • Dalbraut 2, Dalvík
  • Eyrarvegur 26, Grundarfirði
  • Hamrahlíð 12, Vopnafirði
  • Hjarðarhagi 30, Reykjavík
  • Hlíðarvegur 42, Ólafsfirði
  • Hólagata 42, Vestmannaeyjum
  • Hvammstangabraut 21, Hvammstanga
  • Hvanneyrarbraut 45, Siglufirði
  • Kópnesbraut 17, Hólmavík
  • Króksholt 1, Fáskrúðsfirði
  • Lágholt 9, Stykkishólmi
  • Lindarholt 8, Ólafsvík
  • Miðtún 12, Ísafirði
  • Smáragata 6, Vestmannaeyjum
  • Völusteinsstræti 16, Bolungarvík

Þau sem áttu sæti í starfshópnum voru Gísli Gunnarsson, Stefán Magnússon og Þuríður Björg Wiium Árnadóttir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×