Innlent

Segir ráðherra vera að skjóta sendiboðann

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ríkisstjórnina bera ábyrgð á afléttingum. 
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ríkisstjórnina bera ábyrgð á afléttingum.  Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Meðlimir stjórnarandstöðu segja að líta verði til stöðunnar á Landspítala þegar kemur að afléttingum samkomutakmarkana. Ljóst er að tilslakanir eru í kortunum en þingmenn eru ósammála um hvaða vægi tillögur sóttvarnalæknis eigi að hafa.

Nokkrir þingmenn og ráðherrar hafa kallað eftir því að öllum takmörkunum verði aflétt og segja engin rök fyrir slíkum takmörkunum, þrátt fyrir að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi ítrekað sagt að það þurfi að fara varlega, meðal annars til að vernda Landspítala.

Núverandi reglugerð er í gildi út miðvikudaginn 20. október. Sóttvarnalæknir hefur ekki enn skilað inn minnisblaði með tillögum um framhaldið til ráðherra en mun líklega gera það á mánudag. 

„Þórólfur er auðvitað ríkisstjórninni til ráðleggingar og ráðgjafar, það er ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á stöðunni, þannig það er svolítið kostulegt þegar að ráðherrar einn af öðrum fara að skjóta sendiboðann,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Hún segist þó ekki vera á móti afléttingum. 

„Ég held að almenningur þurfi að fá að lifa frjálsara lífi og sérstaklega unga fólkið. Ég hef tönglast á því frá því í sumar að við verðum að hugsa um geðheilsu þjóðarinnar núna. En við verðum auðvitað að ráða við verkefnið og á því ber ríkisstjórnin ábyrgð,“ segir Helga Vala.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, tekur í sama streng. 

„Ég held að ég, eins og flestir aðrir, telji að það sé alveg kominn tími til þess að vera með tilslakanir og ég held að meira að segja sérfræðingar okkar séu að segja það sama,“ segir Gísli og bætir við að aðalmálið sé hvernig staðan er á spítalanum.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, telur að slaka megi verulega á takmörkunum innanlands. 

Hann segist líta sem svo á að það megi ráðast í miklar tilslakanir innanlands og að ríkisstjórnin verði að geta tekið sínar eigin ákvarðanir.

„Það þarf alltaf að taka pólitískar ákvarðanir og það er gott ef þær eru byggðar á góðum upplýsingum og gögnum, eins og frá sóttvarnalækni, en meira að segja hann er að segja að það megi slaka á þannig þá ætti þetta að vera auðveld ákvörðun fyrir ríkisstjórnina,“ segir Gísli.


Tengdar fréttir

Segir tíma til kominn að skila frelsinu aftur til fólksins

Vara­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins og frá­farandi ráð­herra segir tíma­bært að af­létta þeim tak­mörkunum sem lands­menn hafa þurft að sæta síðast­liðið eitt og hálft ár vegna Co­vid. Sótt­varna­læknir segist senni­lega munu skila minnis­blaði til ráð­herra á mánu­dag.

Sigurður Ingi styður allsherjar afléttingar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir ekki eiga að þurfa að rökstyðja hvers vegna frelsi eigi að vera á Íslandi. Sóttvarnalög séu til að takmarka frelsi og þá þurfi að rökstyðja, en ekki hið eðlilega venjulega ástand.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×