Innlent

Tálkn­firðingar skoða sam­einingar­val­kosti

Þorgils Jónsson skrifar
Íbúar Tálknafjarðar funda um sameiningarmál í næstu viku.
Íbúar Tálknafjarðar funda um sameiningarmál í næstu viku. Vísir/Vilhelm

Íbúafundur verður haldinn á Tálknafirði í næstu viku þar sem fjallað verður um möguleika í sameiningarmálum við önnur sveitarfélög.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, segir að sveitarstjórn hafi ákveðið fyrr á árinu að ráðast í svokallaða valkostagreiningu á sameiningakostum og leitaði til RR ráðgjafar í þeirri vinnu.

„Þetta gengur út á að greina stöðu sveitarfélagsins og sjá hvort sameining komi til greina og hverjir séu kostirnir við það. Samt verða það alltaf íbúar sem munu koma til með að taka loka ákvörðunina.“

Íbúafundurinn, sem verður á þriðjudaginn, verði eins konar vinnustofa til að varpa ljósi á skoðanir og álit íbúa á þessum málum.

Tálknafjarðarhreppur hafnaði árið 1994 tillögu um sameiningu við þau sveitarfélög sem nú mynda Vesturbyggð.

Ólafur segir aðstæður hafa breyst mikið síðan þá.

„Verkefni sveitarfélaga eru að verða stærri og flóknari og tilvera smærri sveitarfélaga að verða erfiðari eftir því sem á líður.“

260 íbúar bjuggu á Tálknafirði um mitt ár, en lög sem samþykkt voru í fyrra kveða á um að sveitarfélög með færri en þúsund íbúa

"Í ljósi þess verðum við að fara að skoða þessa hluti. Okkur ber skilda til að annað hvort hefja sameiningarviðræður á næsta kjörtímabili, eða færa rök fyrir því að þau geti staðið undir skyldum sínum.“

Ólafur segir skiptar skoðanir um málið meðal íbúa Tálknafjarðar. Jafnvel sé rætt um að skoða fleiri kosti.

Tálknafjörður á nú í miklu samstarfi við Vesturbyggð í mörgum málaflokkum, til dæmis reka sveitarfélögin sameiginlega félagsþjónustu og fleira.

Ólafur segir að gert sé ráð fyrir að lokaútgáfa skýrslunnar komi fyrir sveitarstjórn í desember og í þá verði tekin ákvörðun um næstu skref.

Sveitarstjórnarkosningar verða í vor, en Ólafur telur ólíklegt að kosið verði um sameiningu meðfram því. Til þess sé tíminn frekar tæpur.

„En það mætti nota kosningarnar, til dæmis til að leggja fram skoðanakönnun um málið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×