Innlent

For­eldrar gagn­rýna arki­tekt og um­sjónar­menn endur­bóta og krefjast að­komu að verk­efninu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Foreldrar eru afar ósáttir við hvernig haldið hefur verið á málunum.
Foreldrar eru afar ósáttir við hvernig haldið hefur verið á málunum. Vísir/Egill

Foreldrafélag Fossvogsskóla hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem finna má þær kröfur sem félagið kom á framfæri við borgarstjóra á fundi með fulltrúum allra árganga á þriðjudag. Fundinn sat einnig skólaráð skólans.

Í tilkynningunni segir meðal annars að foreldrar krefjist þess að öllum börnum í skólanum verði kennt í Fossvoginum í síðasta lagi frá upphafi skólaárs 2022. „Frekari hreppaflutningar koma ekki til greina,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að rífa þurfi miðálmu skólans en í húsinu sé illviðráðanlegt rakavandamál og byggingin sé frá öllum hliðum séð úrelt sem skólahúsnæði. 

Endurhanna þurfi byggingar og endurhugsa. Foreldrar hafi verulegar og rökstuddar áhyggjur af færni, samstarfsvilja og afkastagetu núverandi arkitekts. Þá sé þess krafist að foreldrar eigi fulltrúa í skipulags- og framkvæmdahópum verkefnisins.

„Þeim starfsmönnum umhverfis- og skipulagssviðs og ráðgjafa frá Verkís, sem hafa ítrekað brugðist börnunum okkar undanfarin þrjú ár, verði skipt út. Fullkomið vantraust ríkir af hálfu foreldra til þessara manna sem hafa of lengi staðið fyrir vanefndum og villuljósum,“ segir í tilkynningunni.

Tryggja þurfi að umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar gangi ekki skemur í endurbótum en ráðleggingar EFLU kalli eftir. Þá er þess krafist að borgin veiti án tafar meiri aðstoð inn í skólastarfið og að upplýsingagjöf til foreldra og starfsmanna verði efld.

Arkitektinn hafnar ásökununum

Helga Gunnarsdóttir, arkitekt á teiknistofu Gunnars Hanssonar, hefur hafnað ásökunum foreldra um að hún eða stofan hafi valdið töfum á framkvæmdum. Fréttablaðið hafði eftir Karli Óskari Þráinssyni, formanni foreldrafélagsins, á þriðjudag að svo virtist sem Helga stjórnaði för í framkvæmdunum og tefði verkefnið.

Helga sagði hins vegar í samtali við Fréttablaðið í dag að fleiri kæmu að ákvarðanatöku um til dæmis klæðningu hússins.

„Það er búið að vanda vel til vinnunnar og margir komið þar að. Það eru byggingatæknifræðingar, við arkitektarnir á Teiknistofunni, Reykjavíkurborg og Efla og von mín að málið gangi hraðar fyrir sig núna.“

Tengd skjöl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×