Fótbolti

Endurkomusigur hjá strákunum á móti Litháen og sæti í milliriðli tryggt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslendingar fagna sigrinum eftir leik.
Íslendingar fagna sigrinum eftir leik. vísir/hulda margrét

Íslenska nítján ára landsliðið í knattspyrnu tryggði sér sæti í milliriðli í undankeppni EM 2022 eftir 2-1 sigur á Litháen í þriðja og síðasta leik sínum í riðlinum.

Íslenska liðið lenti undir í leiknum eftir að hafa fengið á sig mark á upphafsmínútu seinni hálfleiks.

Íslensku strákarnir komu hins vegar til baka og tryggðu sér sigurinn.

Orri Steinn Óskarsson jafnaði metin úr víti sem fyrirliðinn Danijel Dejan Djuric fiskaði og varamaðurinn Hilmir Rafn Mikaelsson skoraði sigurmarkið eftir stoðsendingu frá Hákoni Arnari Haraldssyni.

Strákarnir fagna sigurmarki Hilmis Rafns.vísir/hulda margrét

Hilmir Rafn fór í sumar frá Fjölni til Venezia á Ítalíu. Hann kom inn á sem varamaður á 70. mínútu og skoraði markið mínútu síðar.

Íslenska liðið vann tvo af þremur leikjum sínum og endar í öðru sæti á eftir Ítölum sem voru með fullt hús. Hefðu strákarnir tapað leiknum þá hefði litháenska liðið komist upp fyrir þá. Þjálfari liðsins er Ólafur Ingi Skúlason.

Gleðin inni í búningsklefa í leikslok var ósvikin.vísir/hulda margrét

Orri Steinn, leikmaður FCK í Danmörku, skoraði þrjú af fimm mörkum liðsins í riðlinum.

Ljóst er að Ísland leikur í A deild undankeppninnar í annarri umferð hennar í vor, en dregið verður í lok árs. Þau lið sem vinna sína riðla í A deild í annarri umferð fara áfram í lokakeppnina í Slóvakíu sem fer fram 18. júní til 1. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×