Innlent

Leita enn svara við því sem gerðist í Sky Lagoon

Birgir Olgeirsson skrifar
Atvikið átti sér stað í Sky Lagoon á Kársnesi í september. 
Atvikið átti sér stað í Sky Lagoon á Kársnesi í september.  Vísir/Vilhelm

Rannsókn lögreglunnar á andláti í baðlóninu Sky Lagoon á Kársnesi stendur enn yfir.

Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri var úrskurðaður látinn eftir að hafa fundist meðvitundarlaus á botni lónsins þriðjudaginn 21. september síðastliðinn.

Ekki er grunur um að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti en lögreglan hefur haft málið til rannsóknar nú í þrjár vikur.

Öflun gagna stendur enn yfir og bíður lögreglan meðal annars eftir skýrslu réttarmeinafræðings sem krufði hinn látna.

Tilkynning um að maðurinn hefði fundist meðvitundarlaus á botni lónsins barst um klukkan 18 umrædda dagsetningu og var fjöldi gesta vitni. Lögreglan hefur rætt við gestina sem og yfirfarið eftirlitsmyndavélar.

Enn vinnur lögreglan því að því að púsla saman atburðarásina sem varð þess valdandi að maðurinn missti meðvitund með fyrrgreindum afleiðingum en krufningarskýrslan, sem beðið er eftir, mun væntanlega eiga þátt í að svara þeirri spurningu.

Fjöldi sjúkraflutninga- og lögreglumanna fór að Sky Lagoon vegna útkallsins en endurlífgunartilraunir hófust um leið og maðurinn fannst. Hann var úrskurðaður látinn síðar sama kvöld.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.