Innlent

For­maður Heim­dallar gagn­rýnir vista­skipti Birgis

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Veronika telur að lítið sé gert úr vilja kjósenda Sjálfstæðisflokksins með tilkomu Birgis Þórarinssonar í þingflokkinn.
Veronika telur að lítið sé gert úr vilja kjósenda Sjálfstæðisflokksins með tilkomu Birgis Þórarinssonar í þingflokkinn. Vísir/Vilhelm

Veronika Steinunn Magnúsdóttir, formaður Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, telur að vistaskipti Birgis Þórarinssonar þingmanns úr Miðflokki yfir í Sjálfstæðisflokkinn geri verulega lítið úr prófkjörsbaráttu síðarnefnda flokksins, sem og vilja kjósenda hans.

Þessa skoðun viðrar Veronika á Twitter-síðu sinni. Birgir greindi frá því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að hann væri genginn til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, sem er þá með 17 þingmenn. Í Miðflokknum sitja eftir tveir þingmenn.

Í samtali við Vísi segir Veronika að hún telji mikilvægt að niðurstöður prófkjara flokksins séu virtar.

„Mér finnst að við eigum að styðjast við prófkjörin þegar við veljum þingmenn sem hafa rödd innan þingflokksins. En ég ætla ekki að segja nákvæmlega hver afstaða félagsins er í þessu máli,“ segir Veronika og áréttar að um sé að ræða hennar persónulegu sýn á málið. 

Veronika bendir á að í málum sem þessum komi inn þingmaður sem enginn kjósandi Sjálfstæðisflokksins hafi greitt atkvæði, hvorki í prófkjöri né í Alþingiskosningunum. Hún telur að flokkurinn ætti að stíga varlega til jarðar í slíkum málum.

„Fyrir mér þá er þetta aðallega prinsippmál og mér finnst að afstaða flokksmanna komi mjög skýrlega fram í prófkjörinu. Það setur tóninn varðandi það hvar hugur kjósenda liggur. Að fá einhvern fyrir hönd flokksins sem hefur verið kjörinn af kjósendum annars flokks, þar hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins ekkert um það að segja,“ segir Veronika.

„Við viljum beita okkur í prófkjörunum, það er það sem stendur og kjósendur flokksins fengu ekki tækifæri til að segja hug sinn í þessu máli.“


Tengdar fréttir

Segir Klaustursskýringar Birgis ekki halda vatni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir vistaskipti þingmannsins Birgis Þórarinssonar yfir til Sjálfstæðisflokksins vera vonbrigði. Fyrst og fremst telji hann ákvörðun Birgis ranga gagnvart því fólki sem unnið hafi að því að koma Birgi á þing í sínu kjördæmi. Hann telur skýringar Birgis um að vistaskiptin tengist Klaustursmálinu ekki halda vatni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×