Innlent

Bjarni Ben býður Birgi vel­kominn

Þorgils Jónsson skrifar
Bjarni Benediktsson hefur boðið Birgi Þórarinsson velkominn í Sjálfstæðisflokkinn.
Bjarni Benediktsson hefur boðið Birgi Þórarinsson velkominn í Sjálfstæðisflokkinn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, býður Birgi Þórarinsson velkominn í flokkinn, á Facebooksíðu sinni nú rétt í þessu.

Bjarni deilir þar frétt mbl.is um viðskilnað Birgis við Miðflokkinn og segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn er breiðfylking og við fögnum því að fá nýtt fólk í hópinn. Ég býð Birgi Þórarinsson velkominn og hlakka til samstarfsins.“

Birgir kom mörgum, þar á meðal flokkssystkinum sínum, á óvart í morgun með því að tilkynna í grein í Morgunblaðinu að hann hefði ákveðið að yfirgefa Miðflokkinn og ganga til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins, tæpum tveimur vikum eftir þingkosningar þar sem hann var endurkjörinn sem þingmaður Suðurkjördæmis.

Vistaskiptin hafa vakið talsverð viðbrögð í dag, enda er þing ekki enn komið saman eftir kosningar. Í samtali við fréttastofu í morgun sagði Birgir að aðför lykilmanna innan Miðflokksins að honum fimm dögum fyrir kosningar hafi haft úrslitaáhrif um þessa ákvörðun. 

Hann sagðist ekki vilja nafngreina hvaða lykilmenn þar var um að ræða.

Þá sitji Klaustursmálið og framferði félaga hans enn í honum og ekki hafi gróið um heilt milli hans og annarra flokksmanna eftir að hann hafi gagnrýnt þau sem þar tóku þátt.

Miðflokksfólk hefur gagnrýnt Birgi harðlega fyrir meint svik. Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Sveitarfélaginu Árborg og kosningastjóri flokksins í nýafstöðnum Alþingiskosningum, sakaði hann meðal annars um sjálfhverfu og óheilindi í aðsendri grein á Vísi.

Þá líkti Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingflokksfélagi Birgis, ákvörðun þess síðarnefnda við sveðjustungu í bak Miðflokksfólks, í samtali við RÚV fyrr í dag.

Nú sitja tveir Miðflokksmenn eftir á þingi, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður og Bergþór Ólafsson.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Sakar Birgi Þórarins­son um sjálf­hverfu

Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Sveitarfélaginu Árborg, gagnrýnir Birgi Þórarinsson harðlega fyrir ákvörðun sína um að ganga í Sjálfstæðisflokkinn.

„Það skiptir máli hvaða manneskjur setjast á þing“

Formaður Stjórnarskrárfélagsins hefur lagt fram kæru vegna Alþingiskosninganna og kallar eftir að þjóðin öll gangi að kjörstöðum að nýju. Vistaskipti Birgis Þórarinssonar, þingmanns í Suðurkjördæmi, sýni svart á hvítu hve miklu máli skipti hvaða fólk hafi komist inn á þing. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.