Innlent

Sakar Birgi Þórarins­son um sjálf­hverfu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg.
Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg. Miðflokkurinn

Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Sveitarfélaginu Árborg, gagnrýnir Birgi Þórarinsson harðlega fyrir ákvörðun sína um að ganga í Sjálfstæðisflokkinn.

Birgir er kominn í Sjálfstæðisflokkinn eftir að hafa verið þingmaður Miðflokksins í fjögur ár. Tómas Ellert, fyrrverandi flokksbróðir Birgis, segir hann með þessu vera að hrópa ókvæðisorðum í garð fyrrum samflokksfélaga.

„Sjálfshyggju þingmannsins virðast lítil takmörk sett á sviði stjórnmálanna þessi dægrin,“ skrifar Tómas um Birgi.

„Það sem sker þó helst í skynsöm augu við lestur hennar, er að það sé mögulegt að koma kvarthundrað sinnum fyrir orðinu „ég“ í tæplega sjöhundruð orða grein. Og að hann klappi sjálfum sér á bakið og þakkar sér kærlega fyrir að hafa viðhaldið styrkleika Miðflokksins í Suðurkjördæmi á síðasta kjörtímabili. Úrslit kosninganna nú séu svo öðrum að kenna,“ skrifar bæjarfulltrúinn.

Tómas segir Birgi auk þess upplýsa um óheilindi sín í garð fyrrum samflokksfélaga í aðdraganda kosninga og eftir kjördag.

Í skoðanagreininni segir Tómas að hann hafi ekki frétt af þessum áformum Birgis fyrr en ákvörðun hafi verið tekin og framkvæmd. Í kjölfarið spyr hann hvar samviskan og heilindin séu í þeirri sjálfsákvörðunartöku.

Tómas segir í kjölfarið að þingmaðurinn sjálfur hafi ákveðið að taka að sér það hlutverk að vera „trúboðinn sem iðkar ekki trúna sem hann boðar“ og slær því upp sem fyrirsögn greinarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×