Enski boltinn

Klopp: Fólk á að eftir að muna eftir þessu marki eftir 50-60 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah skorar markið frábæra gegn Manchester City.
Mohamed Salah skorar markið frábæra gegn Manchester City. getty/Peter Byrne

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði Mohamed Salah í hástert eftir leikinn gegn Manchester City í gær. Hann sagði að stuðningsmenn Liverpool myndu seint gleyma markinu sem Salah skoraði í leiknum.

Salah lagði fyrsta mark leiksins upp fyrir Sadio Mané á 59. mínútu. Phil Foden jafnaði fyrir City tíu mínútum síðar en á 76. mínútu var röðin komin að Salah. Hann lék þá glæsilega á varnarmenn City og skoraði svo með föstu hægri fótar skoti í fjærhornið.

„Aðeins bestu leikmenn heims skora svona mörk. Fyrsta snertingin, gabbhreyfingin þegar hann fer með boltann á hægri fótinn og afgreiðslan voru stórkostleg,“ sagði Klopp.

„Þetta félag gleymir aldrei svona löguðu svo fólk mun tala um þetta mark lengi. Eftir 50-60 ár á fólk eftir að muna eftir markinu.“

Því miður fyrir Salah og Liverpool dugði mark hans ekki til sigurs því Kevin De Bruyne jafnaði í 2-2 á 81. mínútu. Liverpool er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig, einu stigi á undan City sem er í 3. sætinu.

Salah hefur verið í miklum ham það sem af er tímabili og hefur skorað níu mörk í öllum keppnum. Egyptinn hefur skorað í sjö leikjum í röð og aðeins mistekist að skora í einum leik á tímabilinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.