Innlent

Skjálftar við Keili valda vísinda­mönnum hugar­angri

Birgir Olgeirsson skrifar
Skjálftarnir raða sér á milli nyrsta hluta kvikugangsins við gosið í Geldingadölum og Keilis.
Skjálftarnir raða sér á milli nyrsta hluta kvikugangsins við gosið í Geldingadölum og Keilis. Vísir/Vilhelm

Skjálftavirkni við fjallið Keili veldur vísindamönnum hugarangri. Skjálftarnir raða sér á milli nyrsta hluta kvikugangsins við gosið í Geldingadölum og Keilis. Þá heldur land áfram að rísa í Öskju.

Fleiri hundruð skjálftar hafa mælst við fjallið Keili á Reykjanesi síðasta sólarhringinn. Skjálftarnir eru á fimm til sjö kílómetra dýpi og en sá stærsti reið yfir nú á tólfta tímanum í morgun, 3,5 að stærð. 

„Þetta er að raða sér á milli Litla-Hrúts og Keilis og er þarna nyrst við kvikuganginn. Það er spurning hvað þetta þýðir. Það eru auðvitað virk flekaskil þarna, hvort þetta sé bara eftirspenna þarna eða hvort að kvikan sé að færa sig í þessa átt. Það er eiginlega bara of snemmt að segja til um það, “segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Skjálftarnir hafa raðað sér á milli Kelis og Litlahrútar, sem er við nyrsta hluta kvikugangsins við Fagradalsfjall.

Verði eldsuppkoma við Keili, og þar með norðan við vatnaskil Reykjanesskaga, þá er líklegra að hraun renni í átt að Faxaflóa og þar með til Reykjanesbrautar.

„En það er ekkert víst að kvikan myndi brjóta sér leið nær þarna eða hvort það yrði nær Litla-Hrút. Það er erfitt að segja til um það akkúrat núna ef það skyldi gerast.“

Landris heldur áfram við Öskju

Þá hefur land risið við Öskju síðan í september. Landrisið hefur náð ellefu sentímetrum en því fylgir ekki óregulegir skjálftar. Er það rakið til kvikuumbrota á tveggja til þriggja kílometra dýpi.

„Þetta er frekar venjulegt. Gerist hægt og rólega. Það þarf ekki endilega að þýða að það gerist á næstunni. Við sáum það í Fimmvörðuhálsgosinu að það tók um tíu, tuttugu ár að undirbúa sig. Það getur verið að það gerist eitthvað eftir mörg ár. Maður veit það ekki alveg. En svo má vel vera að það gerist eitthvað á næstunni. Það er erfitt að segja til um það,“ segir Lovísa Mjöll.


Tengdar fréttir

Óvissustig vegna landriss í Öskju

Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi Eystra lýsir yfir óvissustigi vegna landriss í Öskju. Síðustu vikur hafa mælst hraðar landbreytingar í Öskju, bæði á GPS-mælitæki staðsett þar og eins með nákvæmri úrvinnslu gervitunglamynda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×