Innlent

Dæmdir fyrir milljóna dósasvindl í Eyjum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Vestmannaeyjum, þar sem brotin áttu sér stað.
Frá Vestmannaeyjum, þar sem brotin áttu sér stað. Vísir/Vilhelm

Tveir karlmenn í Vestmannaeyjum hafa verið dæmdir í þrjátíu og 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa dregið sér rúmlega tvær milljónir króna sem starfsmenn Endurvinnslunnar í Heimaey. Mennirnir útbjuggu kvittanir fyrir móttöku drykkjarumbúða, án þess að skila slíkum umbúðum, og hirtu skilagjaldið.

Dómar í málunum féllu í Héraðsdómi Suðurlands fyrr í mánuðinum en mennirnir tveir voru misstórtækir í fjárdrættinum. Annar þeirra var ákærður fyrir að hafa minnst 184 sinnum útbúið móttökukvittanir fyrir móttöku drykkjarumbúða án þess að slíkum umbúðum hafi verið skilað inn til endurvinnslu, en hinn í 87 skipti.

Skilagjaldið millifærðu þeir inn á eigin bankareikninga. Sá sem var stórtækari hafði 1,8 milljónir upp úr krafsinu en hinn 807 þúsund krónur.

Sjá má í dómum héraðsdóms að brotin hófust á vormánuðum 2018 og stóðu jafnt og þétt yfir í rúmlega eitt ár, til júní 2019. Sá stórtækari millifærði hærri upphæðir á eigin reikning, allt frá sextán krónum upp í 69.408 krónur, en hinn millifærði mest 19.424 krónur á eigin reikning.

Mennirnir mættu báðir fyrir dóm og viðurkenndu skýlaust að hafa gerst sekir um þá háttsemi sem þeir voru ákærður fyrir.

Að teknu tilliti til játninganna og þeirri staðreynd að sá stórtækari átti ekki að baki sakaferil og að hinn hafði ekki áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, þótti héraðsdómi rétt að dæma þann stórtækari í 45 daga fangelsi en hinn í 30 daga fangelsi. Báðir dómar falla niður haldi þeir almennt skilorð í tvö ár. Þá þarf hinn stórtækari að greiða 141 þúsund krónur í sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×