Innlent

Spá norðvestan stórhríð á Vestfjörðum og við Breiðafjörð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á morgun verður lítið ferðaveður víðsvegar á landinu.
Á morgun verður lítið ferðaveður víðsvegar á landinu.

Veðurstofa Íslands spáir nú norðvestan stórhríð á Vestfjörðum á morgun. Gera má ráð fyrir 18 til 25 m/s og talsverðri snjókomu, með skafrenningi og lélegu skyggni. Þá segir Veðurstofa hættu á foktjóni og um að ræða „alls ekkert ferðaveður“.

Viðvörunin gildir frá kl. 10 til kl. 20. Appelsínugul viðvörun er einnig í gildi við Breiðafjörð á morgun, fyrir tímabilið frá kl. 15 til kl. 23.

Gular viðvaranir eru í gildi fyrir norðan og á miðhálendinu. Þar er spáð norðan og síðan vestan hríð með snjókomu eða slyddu og skafrenningi. Skyggni verður takmarkað og akstursskilyrði erfið. Þá er fólk hvatt til að ganga frá lausamunum.

Veðurstofa spáir ofsaviðri á Vestfjörðum og við Breiðafjörð á morgun.

Horfur næsta sólahringinn:

Norðan 13-23 m/s vestantil á landinu í dag og auk þess slydda eða snjókoma norðvestanlands fram eftir degi, en lægir og dregur úr úrkomu í kvöld. Mun hægari breytileg átt í öðrum landshlutum og þurrt að kalla, en fer að rigna suðaustanlands seinnipartinn. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Norðvestan og vestan 15-25 á morgun, hvassast norðvestantil, og talsverð slydda eða snjókoma um norðanvert landið. Hægari vindur og skúrir eða él sunnanlands. Úrkomuminna og dregur úr vindi seint annað kvöld .

Athugasemdir veðurfræðings:

Hríðarveður á Vestfjörðum og við Breiðafjörð þangað til seint í dag. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast með veðri og spám, sjá gular viðvaranir.

Norðvestan hríð norðan- og vestantil á morgun, en stórhríð á Vestfjörðum og stormur eða rok við Breiðafjörð. Sjá appelsínugular og gular viðvaranir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×