Innlent

Fjórir flokkar hafa nú farið fram á endur­talningu í Suður­kjör­dæmi

Atli Ísleifsson skrifar
Svo gæti farið að atkvæði í Suðurkjördæmi verði talin aftur.
Svo gæti farið að atkvæði í Suðurkjördæmi verði talin aftur. Vísir/Vilhelm

Fjórir stjórnmálaflokkar hafa nú farið fram á endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi. Umboðsmenn Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokksins hafa nú tekið undir kröfu Vinstri grænna um endurtalningu – kröfu sem Píratar tóku undir í gær.

Þetta staðfestir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, í samtali við fréttastofu. Mjög mjótt var á munum í kjördæminu og þannig munaði aðeins sjö at­kvæðum á lista Vinstri grænna, sem náðu ekki inn manni, og Mið­flokksins sem fékk síðasta kjör­dæma­kjörna þing­manninn.

Þórir segir að yfirkjörstjórn muni funda um málið eftir hádegi og að mögulega verði eitthvað að frétta um klukkan 14.

Endur­talning á atkvæðum fór fram í Norð­vestur­kjör­dæmi síðdegis í gær þar sem nokkur at­kvæði hliðruðust til milli nokkurra flokka, sem varð til þess að jöfnunar­sæti í öllum kjör­dæmum nema einu fóru á flakk.

Ef endur­talning í Suður­kjör­dæmi leiddi það í ljós að Vinstri græn væri með fleiri at­kvæði en Mið­flokkurinn myndi slíkt hafa svipaðar af­leiðingar í för með sér. Ef kjör­dæma­kjörinn þing­maður Mið­flokksins dytti út yrði flokkurinn að fá annan þing­mann inn sem jöfnunar­mann. Í hvaða kjör­dæmi það yrði og á hvaða önnur jöfnunar­sæti það hefði á­hrif er þó ó­ljóst.

Engir umboðsmenn í „gæðatékkinu“

Álfheiður Eymarsdóttir, sem skipaði 1. sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi, segir frá því á Facebook í morgun að Sjálfstæðismenn og Sósíalistar hafi sömuleiðis tekið undir athugasemdir Pírata um að „gæðatékk“, sem var endurtalning á atkvæðum að hluta, hafi verið framkvæmd án þess að umboðsmenn hafi verið látnir vita og því hafi enginn umboðsmaður viðstaddur.

„Sósíalistar tóku einnig undir kröfu okkar um að kjörstjórn skýrði frá því skriflega hvernig atkvæða var gætt eftir að talningu lauk í FSU,“ segir Álfheiður.


Tengdar fréttir

Fleiri vilja endur­talningu í Suður­kjör­dæmi

Píratar í Suður­kjör­dæmi hafa nú tekið undir kröfu Vinstri grænna um að at­kvæði í kjör­dæminu verði endur­talin en þar munar sjö at­kvæðum á lista Vinstri grænna, sem náðu ekki inn manni, og Mið­flokksins sem fékk síðasta kjör­dæma­kjörna þing­manninn.

Hvergi talið aftur nema mögu­lega í Suður­kjör­dæmi

Ekki stendur til að telja aftur atkvæði í Alþingiskosningunum sem fram fóru í gær í neinu þeirra kjördæma þar sem endurtalning hefur ekki þegar farið fram. Beiðni um endurtalningu hefur þó komið fram í einu kjördæmi. Endurtalning í Norðvesturkjördæmi í dag skilaði breyttri niðurstöðu sem olli því að fimm jöfnunarþingmenn duttu út af þingi og aðrir komu í þeirra stað.

Viður­kennir að hafa ekki inn­siglað kjör­seðla og ber fyrir sig hefð

Formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi segir að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð að talningu lokinni. Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í kjördæminu, segir trúverðugleika kosninganna engan og segir einu færu leiðina vera að kosið verði aftur í kjördæminu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.