Innlent

Ljóst að margir hafi ekki verið með hugann við sótt­varnir um helgina

Atli Ísleifsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist vona að kosningavökur og fögnuðir tengdum fótbolta helgarinnar muni ekki koma í bakið á mönnum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist vona að kosningavökur og fögnuðir tengdum fótbolta helgarinnar muni ekki koma í bakið á mönnum. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist vona að mannamót helgarinnar – bæði kosningavökur stjórnmálaflokka og fögnuðir tengdum fótbolta – komi ekki til með að skila sér í fjölgun kórónuveirusmita í samfélaginu. Hann segir ljóst að margir hafi ekki sérstaklega haft hugann við sóttvarnir um liðna helgi og að hann voni að það komi ekki í bakið á okkur.

Þetta sagði Þórólfur í samtali við umsjónarmenn Bítisins á Bylgjunni í morgun. „Svo sjáum við hvað muni gerast eftir þessa síðustu helgi. Mér sýnist að margir hafi ekki farið eftir sóttvarnareglum almennt séð í samfélaginu núna um helgina,“ sagði Þórólfur.

Vísaði hann þar sérstaklega til kosningavaka stjórnmálaflokkanna og fögnuði í tengslum við lokaumferð efstu deildar karla í fótbolta. „Miðað við það sem ég sá í sjónvarpinu virðist sem að fólk hafi verið með hugann við eitthvað annað en sóttvarnir.“

Þórólfur segir ljóst að það séu alltaf einhverjir sem séu sáttir og aðrir ósáttir með þær takmarkanir sem séu í gildi í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins. Þannig veðri það og það er ekkert við því að gera.

Ef tölurnar fara ekki upp eftir þetta er þá ástæða til að aflétta þessu öllu?

„Ja, ég veit það ekki. Ég held að það væri frekar að líta á það þannig að það sem við erum að gera, þær litlu takmarkanir sem eru í gangi, þær eru að halda þessu skaplegu. Ég held að við eigum frekar að hugsa það þannig - eigum við ekki bara frekar að halda þessum takmörkunum, þessum litlu takmörkunum sem eru í gangi, og halda hlutunum þannig eins og þeir eru, frekar en að aflétta öllu og lenda þá kannski í því eins og við gerðum í júlí,“ spyr Þórólfur.

Aðspurður um smittölur helgarinnar segir Þórólfur að honum sýnist þetta hafa verið milli tuttugu til þrjátíu sem hafi greinst á dag. Enn eigi þó eftir að taka þetta almennilega saman.  „Svo megum við búast við að það verði einhver aukning núna eftir helgi þegar fleiri sýni verða tekin,“ segir Þórólfur.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.