Innlent

„Það er ekki mín pólitík og það er ekki pólitík Framsóknar“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á kjörstað.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á kjörstað. Vísir/Magnús Hlynur

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir það hvorki sína pólitík né pólitík Framsóknarflokksins, að setja fram kröfur og hóta því að ganga frá borði ef þær eru ekki uppfylltar.

Formaðurinn ræddi við þáttastjórnendur í Bítinu á Bylgunni í morgun, þar sem hann var ítrekað spurður að því hvort hann myndi gera kröfu um forsætisráðuneytið í ljósi þess að flokkurinn vann stórsigur í nýafstöðnum þingkosningum og bætti við sig fimm mönnum.

Sigurður Ingi sagði ekkert launungarmál að fylgisaukning Framsóknarflokksins hefði gert það að verkum að ríkisstjórnin stæði á styrkum fótum. Þá hefðu menn áhrif með því að vera í forsvari fyrir ríkisstjórn og fara með „öflug“ ráðuneyti.

Hann sagðist myndu standa við yfirlýsingar sem gefnar voru út í aðdraganda kosninganna um að byrja á því að reyna að ná saman við hina stjórnarflokkana. Þá byrjaði maður ekki á að panta eitthvað og hóta því að vera ekki með ef maður fengi sínu ekki framgengt.

„Það er ekki mín pólitík og það er ekki pólitík Framsóknar,“ sagði hann.

Sigurður Ingi sagðist hlakka til að hitta nýja og öflugan þingflokk í dag. „Og við kannski tökum samtalið,“ sagði hann. Ljóst væri að úti í samfélaginu og innan flokksins væru alls konar hugmyndir uppi og vissulega væri það eðlilegt að þeir sem hefðu staðið sig vel nytu þess.

Aðspurður sagðist Sigurður Ingi ekki eiga von á því að viðræður stjórnarflokkanna tækju langan tíma; þeir hefðu unnið lengi saman og að ýmsum málum og vissu hvaða mál stæðu útaf.

Óformleg samtöl hefðu átt sér stað og þau myndu líklega ræða eitthvað saman í dag og á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×