Innlent

Vinstri græn biðja um endur­talningu í Suður­kjör­dæmi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Svo gæti farið að atkvæði í Suðurkjördæmi verði talin aftur.
Svo gæti farið að atkvæði í Suðurkjördæmi verði talin aftur. Vísir/Vilhelm

Yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis hefur borist beiðni um endurtalningu atkvæða í kjördæminu. Mjótt var á mununum í kjördæminu og nokkur atkvæði til eða frá geta breytt stöðunni, líkt og endurtalning dagsins í Norðvesturkjördæmi hefur sýnt.

Í samtali við fréttastofu staðfestir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, að umboðsmenn á vegum Vinstri grænna hefði lagt fram beiðni um endurtalningu. Ekki verði tekin afstaða til beiðninnar fyrr en á morgun.

„Mér sýnist að við náum ekki saman fundi hjá yfirkjörstjórn fyrr en eftir hádegi á morgun,“ segir Þórir. 

Hann segir beiðnina ekki lagða fram vegna gruns um að nokkuð hafi misfarist við talningu atkvæða, heldur aðeins að mjótt hafi verið á mununum í kjördæminu.

Aðeins sjö atkvæða munur var á Miðflokki, 2.207 og VG, 2.200. Þannig vantaði Vinstri græn aðeins átta atkvæði til þess að Hólmfríður Árnadóttir, sem fyrr í dag datt út sem jöfnunarþingmaður, næði að vera kjördæmakjörin, yfir Miðflokksmanninn Birgi Þórarinsson.


Tengdar fréttir

Konur ekki lengur í meiri­hluta á Alþingi eftir endur­talningu

Þegar lokatölur úr öllum kjördæmum í Alþingiskosningunum lágu fyrir í morgun var útlit fyrir að konur yrðu í meirihluta á Alþingi, í fyrsta sinn í sögunni. Eftir að endurtalning í Norðvesturkjördæmi breytti röðun jöfnunarþingmanna er sá meirihluti hins vegar að engu orðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×