Innlent

Framsókn í bókstaflegri framsókn

Heimir Már Pétursson skrifar
Framsóknarflokkurinn hefur aukið fylgi sitt mikið milli tveggja kannana Maskínu fyrir Stöð 2.
Framsóknarflokkurinn hefur aukið fylgi sitt mikið milli tveggja kannana Maskínu fyrir Stöð 2. Vísir/Vilhelm

Mikil hreyfing er enn á fylgi flokkanna en samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir Stöð 2, Vísi og Bylgjuna myndi ríkisstjórnin sem var fallin í gær fá lágmarksmeirihluta á Alþingi í kosningunum á morgun.

Framsóknarflokkurinn er í mikilli sókn samkvæmt könnun Maskínu sem gerð var í gær og í dag og sömuleiðis eru breytingar á fylgi og þá sérstaklega þingmannatölu annarra flokka miðað við könnun Maskínu sem við greindum frá í gær.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig tæpu prósentustigi og mælist nú með 21,4 prósent, fylgi Vinstri grænna minnkar um eitt prósentustig og mælist nú 10,5 prósent en þriðji stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, tekur stökk og mælist nú með 15,4 prósent atkvæða. Samfylkingin bætir við sig tveimur prósentustigum og mælist nú með 13,8 prósent, Píratar dala aðeins og eru nú með 10,2 prósent og Viðreisn dalar einnig lítillega og mælist nú með 10,1 prósent.

Miðflokkurinn dalar um tæp tvö prósentistig og er nú með 5,5 prósent, Flokkur fólksins bætir aftur á móti við sig tæpu prósentustigi og er nú með 6,1 prósent. Sósíalistaflokkurinn er á svipuðum slóðum og í könnun Maskínu frá í gær með 6,2 prósent.

Þessar breytingar hafa mikil áhrif á þingmannatölu flokkanna.

Sjálfstæðisflokkurinn er áfram með 15 þingmenn eins og í könnun Maskínu í gær, tapar einum frá kosningunum 2017. Vinstri græn missa einn þingmann frá í gær, fengju nú sex , fimm færri en í síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn bætir hins vegar við sig tveimur þingmönnum frá í gær og fengi ellefu kjörna á þing, þremur fleiri en í kosningunum 2017.

Samfylkingin bætir við sig einum þingmanni frá í gær og fengi átta sem einnig er einum þingmanni fleiri en í síðustu kosningum. Píratar missa einn þingmann frá í gær og fengju sex kjörna, einum færri en í kosningunum 2017. Viðreisn missir einnig einn þingmann frá könnun Maskínu í gær, fengi nú sex en fékk fjóra menn kjörna í síðustu kosningum. Miðflokkurinn missir sömuleiðis einn þingmann frá því í gær fengi nú þrjá kjörna en var með sjö eftir síðustu kosningar.

Flokkur fólksins bætir við sig þingmanni frá því í gær fengi nú fjóra kjörna eins og í kosningunum 201. Sósíalistaflokkurinn stendur hins vegar í stað milli þessarra tveggja Maskínukannana og fengi fjóra menn kjörna.

Ríkisstjórnin fer því frá því að vera fallin með 31 þingmann í gær í 32 þingmenn í dag, sem er lágmarksmeirihluti á Alþingi. Reykjavíkurmódelið fengi aftur á móti 26 þingmenn.


Tengdar fréttir

Ný Maskínu­könnun: Hvorki ríkis­stjórnin né Reykja­víkur­módelið ná meiri­hluta

Ef úrslit kosninganna á laugardag verða eins og í könnun Maskínu fyrir fréttastofuna væri Sjálfstæðisflokkurinn að fá sögulega útreið með 20,6 prósent atkvæða. Flokkur forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttur, væri líka að tapa verulegu fylgi frá síðustu kosningum með 11,5 prósent. Könnun Maskínu var gerð 15.-22. september og tóku tæplega sex þúsund afstöðu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×