Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í tveimur málum í fyrra að svokölluð uppgreiðsluþóknun Íbúðalánasjóðs hefði verið ólögmæt. Málunum tveimur var áfrýjað og fengu þau bæði flýtimeðferð í Hæstarétti. Hæstiréttur sýknaði sjóðinn í öðru málinu en ómerkti hitt og vísaði því til meðferðar í héraði á nýjan leik. Dómur í því máli var kveðinn upp í gær, þar sem Íbúðalánasjóður var sýknaður af kröfum um endurgreiðslu uppgreiðsluþóknunar en hefði hann farið á annan veg hefði það kostað ríkissjóð milljarða.
Lántakarnir byggðu mál sitt meðal annars á því að uppgreiðslugjaldið félli undir lántökukostnað. Dómurinn hafnaði því hins vegar enda feli það ekki í sér kostnað við að taka lán, lántökukostnað, að greiða uppgreiðsluþóknun til að ljúka greiðslu láns fyrr en samningur aðila gerir ráð fyrir og þá sérstaklega í tilviki sem þessu, þar sem lántaki afsalar sér heimild til uppgreiðslu.
Lögbrot sem hafi engar afleiðingar í för með sér
Jónas Friðrik Jónsson, lögmaður stefnanda, furðar sig á niðurstöðunni.
„Það sem kemur á óvart er það að þegar Íbúðalánasjóður brýtur gegn lögum um neytendalán, með því að hafa ekki ákvæði í lánasamningi um það hvernig uppgreiðslugjald skuli reiknað út, að það uppgreiðslugjald sem er í formi vaxtaafleiðu – að þá hafi slíkt lögbrot engar afleiðingar fyrir sjóðinn,” segir hann.
Þá komi það enn meira á óvart að sjá hversu miklar kröfur séu lagðar á herðar neytenda um öflun upplýsinga, en í málinu bentu lántakendur á að hafa ekki fengið neitt kynningarefni um uppgreiðsluþóknun sjóðsins.
Málinu ekki lokið
Dómurinn mat það hins vegar sem svo að þó það sé ósannað að þeim hafi verið kynntar þessar upplýsingar þá liggi það fyrir að þeim hafi í fjórgang gefist tilefni til að kynna sér upplýsingarnar rafrænt á heimasíðu Íbúðalánasjóðs.
„Lögbundin upplýsingaskylda fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um neytendalán og almennar kröfur til lánastofnana um vönduð vinnubrögð eru að mínu mati meðhöndluð þarna með léttvægum hætti. Og dómurinn gerir í raun meiri kröfur til neytenda um öflun þekkingar en kröfur til lánastofnana um veitingu upplýsinga um samningsskilmála og fjárhagslegt umfang lánaskuldbindinga,” segir Jónas, og bætir við að málinu verði áfrýjað.
„Það verður látið reyna á það hvort íslenskir neytendur njóti ekki meiri verndar en þessi niðurstaða gefur til kynna.”