Innlent

Bætir 300 fer­kíló­metrum við Vatna­jökuls­þjóð­garð

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er umhverfis- og auðlindaráðherra. Myndin er frá krossárgili innan þjóðgarðs.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er umhverfis- og auðlindaráðherra. Myndin er frá krossárgili innan þjóðgarðs. Stjórnaráðið/Anna Þorsteinsdóttir/Vísir/Vilhelm

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur undirritað breytingar á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð sem kveður á um þrjú hundruð ferkílómetra stækkun á norðursvæði þjóðgarðsins.

Frá þessu segir á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, en með viðbótinni verður Vatnajökulsþjóðgarður nú 14.967 ferkílómetrar.

„Stækkunin er öll á þjóðlendu innan Þingeyjarsveitar, en svæðið sem bætist við þjóðgarðinn er 299 km2 af óbyggðum víðernum á Bárðdælaafrétt austari. Svæðið sem bætist við þjóðgarðinn nær frá sveitarfélagamörkum Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps og langleiðina að Skjálfandafljóti. Vestari mörk hins stækkaða svæðis ná að mögulegu framkvæmdasvæði virkjunarkosta sem eru til meðferðar í verndar- og orkunýtingaráætlun. Undirbúningur stækkunar hefur verið í nánu samstarfi við Þingeyjarsveit og í samráði við stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs,“ segir í tilkynningunni.

Einnig segir að svæðið sé alþjóðlega mikilvægt fyrir heiðagæs en hátt í 10 prósent af íslenska heiðagæsastofninum verpi á svæðinu í grónum dölum, einkum nyrst á svæðinu.

Mikil verðmæti, segir ráðherra

Haft er eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra að það séu gríðarlega mikil verðmæti í óbyggðum víðernum á hálendi Íslands.

„43% af ósnortnum víðernum Evrópu er að finna á Íslandi og því er ábyrgð okkar mikil að rýra þau ekki frekar. Með þessari stækkun njóta nú stærri hluti víðerna landsins verndar til framtíðar og þökk sé framsýni sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að þá bætast nú um 300 km2 af óbyggðum víðernum við þjóðgarðinn. Á sama tíma eflum við landsbyggðina með fjölgun starfa vegna aukinna verkefna þjóðgarðsins á svæðinu,“ er haft eftir Guðmundi Inga.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.