Innlent

María og Sigríður skipaðar dómarar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigríður Rut Júlíusdóttir og María Thejll voru metnar hæfastar umsækjenda.
Sigríður Rut Júlíusdóttir og María Thejll voru metnar hæfastar umsækjenda. Réttur/HÍ

Dómsmálaráðherra hefur skipað Maríu Thejll í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjaness frá 1. október 2021 og Sigríði Rut Júlíusdóttur í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur frá sama degi.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. María og Sigríður Rut voru metnar hæfastar af dómnefnd um embætti dómara, sem skilaði umsögn um umsækjendur um embættin á dögunum.

Alls bárust níu umsóknir um embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur en sjö umsóknir um embætti dómara við Héraðsdóm Reykjaness.

Á vef Stjórnarráðsins segir að María hafi starfað sem lögmaður undanfarin þrettán ár, þar af með réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti Íslands frá árinu 2017.

„Þá hefur hún meðal annars starfað sem skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, sem forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, skrifstofustjóri lagadeildar Háskóla Íslands, sem stundakennari við þá lagadeild og sem formaður eftirlitsnefndar með fjárhagslegri endurskipulagningu heimila og fyrirtækja. Þá var hún um skeið ritstjóri ritraðar sem Lagastofnun Háskóla Íslands hefur gefið út með fræðilegum ritgerðum um lögfræðileg efni.“

Um Sigríði segir að hún hafi starfað sem lögmaður í um tvö áratugi, þar af með réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti Íslands frá árinu 2007.

„Þá hefur hún sinnt kennslu í lögfræði við íslenska háskóla, setið stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, höfundaréttarnefnd, höfundaréttarráði, laganefnd Lögmannafélags Íslands og nefnd um bætur á sviði tjáningar-, fjölmiðla og upplýsingafrelsis og ritað um lögfræði á opinberum vettvangi.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.