„Það greindust þrjú ný smit í gær og það er smitrakning í gangi. Þannig að það mun eitthvað fjölga í sóttkví þegar líður á daginn,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Reyðarfjarðar.
Hann segir að enn sé verið að skoða hvernig skólahaldi verði háttað í næstu viku, þó ljóst sé að aðeins verði lágmarksþjónusta í leikskólum.
„Það er vegna þess að það eru margir starfsmenn sem hafa þurft að fara í sóttkví og við erum að fara yfir það í dag hvernig við getum brugðist við gagnvart þeim sem verða að fá þjónustu, en biðjum líka alla um að sýna okkur skilning og hafa börn heima ef kostur er,“ segir Jón Björn.
Hann segir að nú séu um 185 manns í einangrun. „Við erum á síðustu þremur dögum búin að taka gríðarlegan fjölda sýna, eða á milli 500 til 600 sýni, sem gefur okkur góða mynd af stöðunni. Sannarlega er maður feginn að smitin séu ekki fleiri og það er kannski vísbending um að það náist utan um þetta hratt. Þetta er langhlaup eins og við öll þekkjum og við sjáum hvað kemur út úr þessu.“
Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum verða ekki gefnar upp tölur yfir heildarfjölda smita á landsvísu fyrr en eftir helgi.