Innlent

Angjelin Sterkaj fer fram á refsileysi

Árni Sæberg skrifar
Angjelin Sterkaj, sem játað hefur að hafa orðið Armando Beqirai að bana, í dómsal.
Angjelin Sterkaj, sem játað hefur að hafa orðið Armando Beqirai að bana, í dómsal.

Angjelin Sterkaj, sem er einn þeirra sem ákærð eru fyrir morðið á Armando Beqiri, fer fram á að honum verði ekki gerð refsing á grundvelli þess að hann hafi einungis farið út fyrir lögmæta neyðarvörn vegna þess að hann hafi orðið svo skelfdur að hann hafi ekki getað gætt sín fullkomlega. Hann heldur því fram að hann hafi gripið til örþrifaráðs þegar hann skaut Armando margsinnis þann 13. febrúar síðastliðinn í Rauðagerði.

Þetta kemur fram í greinargerð sem lögmaður Angjelins gerði fyrir hans hönd og fréttastofa hefur undir höndum.

Í greinargerðinni er mikil áhersla lögð á þá atburðarás sem á að hafa valdið því að Angjelin hafi séð sér þann kost einan færan að skjóta Armando Beqiri. 

Armando hafi verið viðriðinn skipulagða glæpastarfsemi

Lögmaður Angjelins vísar meðal annars í orð Margeirs Sveinssonar lögreglumanns á blaðamannafundi þann 26. mars til rökstuðnings þess að Armando hafi tengst skipulagðri glæpastarfsemi. Á fundinum hafi Margeir einfaldlega sagt „Við teljum að svo hafi verið, já“ aðspurður hvort Armando tengdist skipulagðri brotastarfsemi.

Þá segir í greinargerðinni að yfirlýsing Margeirs styðjist við ýmis gögn úr rannsókn málsins, þar á meðal svarta minnisbók sem innihaldi skuldaralista. Einnig er minnst á að í gögnum málsins segi að lögregla hafi upplýsingar um að Armando Beqiri hafi sést funda með vel þekktum aðilum í fíkniefnaheiminum á Íslandi.

Angjelin hafi verið hótað í byrjun árs 

Í greinargerðinni segir að Armando hafi boðað Angjelin á fund sinn í byrjun árs 2021. Þar hafi verið verið fyrir tveir menn sem hafi auk Armandos krafist þess að hann hefði milligöngu um að rukka Anton Kristinn Þórarinsson um sekt. Anton Kristinn sagðist við vitnaleiðslu ekkert kannast við umrædda sekt.

Þá segir að Angjelin hafi verið tekinn hálstaki og honum hent utan í vegg auk þess að honum hafi verið hótað að hann yrði skorinn á háls ásamt ungum syni sínum. Hann hafi þá sagst myndi gera hvað sem Armando og félagar bæðu um í því skyni að komast lífs af.

Lögreglan hafi vitað af byssueign Angjelins

Því er haldið fram í greinargerðinni að Angjelin hafi útvegað sér byssu sem var ætlað að gera Armando ljóst að af honum stæði ógn. Hann hafi því kappkostað við að hafa byssuna á sér öllum stundum til þess að ekki yrði ráðist á hann aftur.

Þá segir að lögregla hafi vitað af byssueign Angjelins og að innanhústölvupóstur lögreglu frá 19. janúar sanni það. „Telur ákærði að lögreglan hafi vitað að hann hafi ekki ætlað að nota hana að fyrra bragði því ellegar hefði lögreglan vitanlega tekið byssuna af honum,“ segir í greinargerðinni.

Hótanir hafi haldið áfram

Í greinargerðinni segir að þann 11. febrúar, tveimur dögum fyrir andlát Armandos, hafi þeir Angjelin og Armando talast við í síma. Armando hafi viljað vita hvar Angjelin væri staddur enda ætlaði hann að koma og skera Angjelin og son hans á háls.

Þá hafi Angjelin sagt að þeir skyldu hittast eftir helgina, en 11. febrúar var fimmtudagur, en Armando ekki viljað una því. Þá hafi þeir rifist með tilheyrandi líflátshótunum. Angjelin hafi gefið lítið fyrir hótanir Armandos og sagt að „hann myndi ekki eiga séns því hann myndi þá fylla maga hans af byssukúlum.“ Símtalið hafi endað á þessum nótum.

Lífshættulegt hafi verið að mæta á fyrirframákveðinn fund

Í greinargerðinni segir að Angjelin hafi þekkt þankagang Armandos og félaga hans sem hafi hótað að drepa hann. Hann hafi vitað að þeir menn væru stórhættulegir og að gögn málsins bendi ekki til að um vænisýki hafi verið að ræða af hálfu Angjelins.

Það hafi verið undir þeim kringumstæðum sem Angjelin ákvað að mæta einn á fund Armandos kvöldið örlagaríka. Það hafi verið ómögulegt og lífshættulegt að mæta á fund sem ákveðið hafi verið að halda mánudaginn 14. febrúar.

Angjelin ákvað að vitja Armandos að heimili hans í Rauðagerði.Vísir/Vésteinn

Angjelin hafi séð þann kost einan að skjóta Armando

Angjelin heldur því fram að hann vitað að von væri á hverju sem er frá Armando og að hann gæti þurft að verja sig. Því hafi hann haft byssu í hönd þegar þeir hittust.

Þá segir að þegar Angjelin hafi ætlað að viðra sættir hafi Armando, sem hafi verið rammur að afli, veist að honum. Angjelin hafi þá þegar fyllst uppnámi og gert sér grein fyrir því að Armando myndi ekki láta af hótunum í garð hans og sonar hans. Hann hafi því ekki séð annan kost í stöðunni en að skjóta Armando þar til hann lést.

Angjelin skuli ekki refsað vegna ákvæðis um neyðarvörn

Aðalkrafa Angjelins í málinu er að honum verði ekki gerð refsing fyrir að ráða Armando af dögum. Hann neitar ekki sök en segir að ákvæði almennra hegningarlaga um neyðarvörn mæli fyrir um að honum skuli ekki gerð refsing.

Ljóst er að hefðbundin neyðarvörn heimilar ekki beitingu skotvopns þegar óvopnaður maður ræðst að þeim sem hyggst beita neyðarvörn. 

Hins vegar segir í greinargerðinni að í annarri málsgrein tólftu greinar almennrar hegningarlaga segi að hafi maður farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar, og ástæða þess er sú, að hann hefur orðið svo skelfdur eða forviða, að hann gat ekki fullkomlega gætt sín, skal honum ekki refsað.

Þegar horft sé til aðdraganda verknaðarins, sér í lagi hótana Armandos í garð Angjelins og sonar hans, tengsla Armandos við skipulagða brotastarfsemi og þeirrar hættu sem stafaði að Angjelin á verknaðarstundu, verði að telja að skilyrði ákvæðisins sé fullnægt og því beri ekki að gera Angjelin refsingu þrátt fyrir mögulega sakfellingu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Í upphaflegri fyrirsögn sagði að Angjelin bæri fyrir sig neyðarvörn. Lögmaður hans hefur bent á að það hafi verið rangt enda væri það krafa um sýknu.


Tengdar fréttir

„Ég þekki þessa hluti, þetta eru ekki mann­eskjur“

Góðvinur og samstarfsmaður Armando Beqirai var harðorður í garð sakborninga í Rauðagerðismálinu svokallaða þegar hann bar vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann sagði sakborningana fjóra ekki manneskjur heldur hluti.

Atlagan í Rauðagerði tók innan við mínútu

Sérfræðingur í að vinna myndefni kom fyrir dóminn í Rauðagerðismálinu í dag og útskýrði hvernig hann hefði notað upplýsingar úr ólíkum áttum, svo sem eftirlitsmyndavélum og farsímagögn, til að búa til myndband sem sýnir atburðarásina laugardagskvöldið 13. febrúar þegar Armando Beqirai var ráðinn bani við heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík.

Aldrei séð skotvopn á heimilinu í Rauðagerði

Ekkja Armando Beqirai, sem var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt við Rauðagerði í febrúar, segir að ekkert skotvopn hafi verið geymt á heimili þeirra, þrátt fyrir staðhæfingu Angjelins Sterkaj um það fyrir dómi í gær. Þetta kom fram þegar hún vitnaði fyrir dómi í morgun við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×