Fótbolti

Arnór Borg skiptir yfir í liðið þar sem pabbi hans hóf ferilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Feðgarnir Arnór og Arnór Borg í Víkinni í dag og strákurinn er kominn í Víkingsbúninginn.
Feðgarnir Arnór og Arnór Borg í Víkinni í dag og strákurinn er kominn í Víkingsbúninginn. Vísir/Vilhelm

Arnór Borg Guðjohnsen var í dag kynntur formlega sem leikmaður Víkings frá og með næsta tímabili. Hann mun þá feta í 44 ára gömul fótspor föður síns.

Faðir og nafni Arnórs Borg, Arnór Guðjohnsen, hóf meistaraflokksferil sinn með Víkingum sumarið 1978. Feðgarnir voru báðir í Víkinni í dag þegar gengið var frá samningnum.

Arnór Guðjohnsen í búningi Víkinga á síðum Dagblaðsins sumarið 1978.Skjámynd/timarit.is/Dagblaðið

Arnór eldri er eins og flestir vita einn besti knattspyrnumaður sem Ísland hefur eignast og annar tveggja sem hefur náð að skora fernu í leik með íslenska A-landsliðinu.

Arnór eldri byrjaði fótboltaferil sinn hjá Völsungi en hafði æft hjá ÍR áður en hann skipti yfir í Víking. Arnór, var sumarið 1978 aðeins sextán ára gamall en hann var kominn út í atvinnumennsku strax um haustið.

Arnór skoraði 7 mörk í 12 leikjum í efstu deild á Íslandi en samdi síðan við Lokeren. Fyrsta deildarmarkið kom í leik á móti ÍBV út í Vestmannaeyjum strax í fyrstu umferð.

Arnór fór í fjögurra daga ferð til Lokeren í júlímánuði, áður en hann hélt upp á sautján ára afmælið sitt, og kom heim með tilboð. Lokeren og Víkingur náðu samkomulagi um haustið og Arnór fór út til Belgíu í september.

Arnór spilaði fimm tímabil með Lokeren en fór til Anderlecht sumarið 1983 þar sem hann náði hápunktinum tímabilið 1986-87 þegar hann varð markakóngur, besti leikmaður deildarinnar og meistari með liðinu.

Arnór var kominn aftur heim til Íslands og hafði spilað í tvö og hálft tímabil með Valsmönnum þegar hann eignaðist Arnór Borg í september 2000.

Arnór Guðjohnsen og Arnór Borg Guðjohnsen ræða málin við Willum Þór Þórsson.Vísir/VilhelmFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.