Innlent

Vonar að takist að ná utan um hópsmit eftir að fimmtungur bæjarbúa fór í skimun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Reyðarfjörður
Reyðarfjörður Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar vonar að niðurstöður skimana sem um fimmtungur Reyðfyrðinga fór í í dag veiti einhvers konar heildarmynd á umfang hópsmits sem þar er komið upp.

Alls greindust tíu manns með kórónuveiruna á Reyðarfirði eftir fjöldasýnatöku gærdagsins sem ráðist var í eftir að grunur kom upp um smit í Grunnskóla Reyðarfjarðar, en staðfest smit eru einnig á leikskólanum Lyngholti.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi segir að alls hafi 250 sýni verið tekin í dag í sýnatöku á Reyðarfirði, en það er um fimmtungur þeirra sem búa í bænum.

Jón Björn Hákonarsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, ræddi stöðuna sem komin er upp í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann segir hópsmitið óneitanlega haft áhrif á samfélagið.

„Að loka bæði grunn- og leikskóla hefur óhjákvæmilega áhrif í samfélaginu okkar. Foreldrar, einhverjir kannski svo heppnir að geta tekið vinnuna aðeins með sér heim en aðrir þurfa náttúrulega að taka börnin heim,“ sagði Jón Björn.

Sagðist hann dást að bæjarbúum sem tækju stöðunni með miklu æðruleysi, staðráðnir í að vinna saman úr stöðunni.

Hann vonar að þegar niðurstöður sýnatöku dagsins í dag liggi fyrir fáist heildarmynd á umfang hópsmitsins og til hvaða aðgerða þurfi að grípa.

„Þá vonum við að við séum komnir með heildarmyndina og hvernig við getum opnað skólana aftur eftir helgina og slíkt og snúið til venjulegs lífs. Vonandi erum við þá búin að ná heildarmyndinni.“


Tengdar fréttir

Grunn­skólanum lokað vegna gruns um smit

Grunur leikur á Covid-19 smiti í grunnskólanum á Reyðarfirði og hefur því verið ákveðið að loka skólanum í dag meðan unnið er að kortlagningu mögulegs smits.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×