Fótbolti

Undankeppni HM - Danir og Norðmenn skoruðu fimm

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Erling Haaland skoraði þrennu í kvöld
Erling Haaland skoraði þrennu í kvöld EPA-EFE/LISE ASERUD

Undankeppni Evrópu fyrir HM 2022 í Katar hélt áfram í kvöld en leikið var í fimm riðlum. Flestar Norðurlandaþjóðirnar voru í miklu stuði en Danir, Norðmenn og Færeyingar skiluðu öll þremur stigum í hús. 

Í A riðli mættust Aserbaijan og Portúgal þar sem Portúgal vann þægilegan 0-3 sigur með mörkum frá Bernando Silva, Andre Silva og Diego Jota. Þá gerðu Írar vel og náðu jafntefli við Serbíu. Portúgalir eru efstir í riðlinum með 13 stig en Serbar eru með 11.

Í D riðli gerðu Bosnía og Kasakstan 2-2 jafntefli þar sem Miralem Pjanic lagði upp og skoraði. Í hinum leiknum sem fram fór í kvöld unnu Frakkar 2-0 sigur á Finnum þar sem Antoine Griezmann skoraði bæði mörk Frakka. Frakkar eru efstir í riðlinum sem stendur með 12 stig þrátt fyrir nokkurt bras í undanförnum leikjum.

Í F riðli unnu Skotar góðan sigur Austurríki 0-1 á útivelli. Danir unnu svo Ísrael 5-0 á Parken, en sigurganga Dana hefur verið með hálfgerðum ólíkindum. Þeir eru með fullt hús stiga og langefstir í riðlinum með 18 stig eftir sex leiki. Þeir hafa skorað 22 mörk sjálfir og ekki fengið á sig eitt einasta. Þvílík frammistaða. Þá fengu Færeyingar lið Moldóvu í heimsókn og unnu frábæran heimasigur, 2-1.

Cornelius skoraði í lokinEPA-EFE/Mads Claus Rasmussen

Í G riðli gerðu Svartfjallaland og Lettland 0-0 jafntefli og Hollendingar burstuðu Tyrki með sex mörkum gegn engu. Erling Haaland var svo í miklu stuði fyrir Norðmenn og setti þrennu í 5-1 sigri. Norðmenn og Holland eru bæði með 13 stig eftir sex leiki og Tyrkir eru með 11.  

Í H riðli sigruðu Króatar lið Slóvena nokkuð þægilega 3-0 og Rússar báru sigurorð af Maltverjum 2-0. Þá sigruðu Slóvakar lið Kýpur 2-0. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×