Innlent

Vill efla frekar ­sam­starf Norður­landa í öryggis- og utan­ríkis­málum

Þorgils Jónsson skrifar
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittust á fjarfundi í gær þar sem margvísleg málefni bar á góma. Þau sjást hér á fundi í Borgarnesi árið 2019.
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittust á fjarfundi í gær þar sem margvísleg málefni bar á góma. Þau sjást hér á fundi í Borgarnesi árið 2019.

Guðlaugur Þór Guðlaugsson utanríkisráðherra undirstrikaði á fjarfundi með norrænum kollegum sínum í gær mikilvægi þess að fylgja eftir tillögum um þróun samstarfs Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum.

Þar vísar Guðlaugur í óháða skýrslu sem Björn Bjarnason vann fyrir ráðherrana og skilaði á síðasta ári.

Í frétt á vef utanríkisráðuneytisins er eftirfarandi haft eftir ráðherra: „Við höfum nú í sameiningu skilgreint og forgangsraðað málum sem við erum sammála um að vinna að með virkum hætti. Nú þurfum við að bretta upp ermar og stíga næstu skref í framkvæmd þessara tillagna,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ráðherrarnir ræddu einnig stöðuna í málefnum Afganistans og hve mikilvægt samstarf Norðurlandanna væri á sviði borgaraþjónustu. Þau sammæltust um áframhaldandi samvinnu í þeim efnum.

„Samvinna okkar við þessar nánustu vinaþjóðir okkar er og verður kjarninn í okkar alþjóðasamstarfi,“ sagði Guðlaugur Þór.

Þá ræddu ráðherrarnir helstu áherslumál Norðurlandanna á komandi allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og í öryggisráðinu, þar sem Noregur á sæti um þessar mundir, sem og málefni Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), þar sem Svíar eru nú í formennsku.

Auk Guðlaugs Þórs tóku þátt í fundinum þau Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar.


Tengdar fréttir

Norðurlönd í sókn og vörn á viðsjárverðum tímum

Fyrr í þessum mánuði skilaði Björn Bjarnason af sér merkilegri skýrslu með fjórtán tillögum um aukið samstarf norrænu ríkjanna fimm á sviði alþjóða- og öryggismála. Það er til marks um gjörbreytt umhverfi í alþjóðamálum að í skýrslunni leggur Björn mikinn þunga í tillögur um að Norðurlöndin efli með sér samstarf um stafrænar ógnir á sviði lýðræðis, jöfnuðar, tjáningarfrelsis og annarra samnorrænna gilda.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.