Innlent

Tóku þátt í her­ferð um fram­línu­fólk í heims­far­aldri en enduðu í sótt­kví

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Í herferðinni er mikilvægi framlínustarfsmanna ítrekað.
Í herferðinni er mikilvægi framlínustarfsmanna ítrekað. Skjáskot/BHM

Allir sem tóku þátt í myndatöku fyrir nýja herferð Bandalags háskólamanna, Læknafélags Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga enduðu í sóttkví eftir að einn þátttakenda greindist smitaður af kórónuveirunni. Herferðinn fjallar um mikilvægi háskólamenntaðra í heimsfaraldri, fólks sem staðið hefur framlínuvakt á tímum Covid.

„Það mætti þarna einkennalaus starfsmaður í myndatöku. Hann var á leiðinni til útlanda og fórí sýnatöku og greindist smitaður,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM, í samtali við Vísi.

Myndatakan fór fram fyrir rúmum tveimur vikum síðan svo að allir sem fóru í sóttkví hafa nú losnað. Friðrik segir að til allrar hamingju hafi enginn annar greinst smitaður í hópnum.

„Allir sem hann hafði verið nálægt fóru í sóttkví, fóru í próf og sem betur fer smitaðist enginn annar og allir sluppu með skrekkinn. Þessi starfsmaður var með grímu og hanska allan tímann, að spritta sig og annað. Hann gætti fyllstu varúðar,“ segir Friðrik.

„Eins og þessi blessaði veiru fjandi er er hann lúmskur. Þetta er bölvað bögg en það kunnu allir að bregðast við og allir gerðu sitt: fóru í sóttkví og kláruðu hana,“ segir Friðrik.

„Þetta sýnir bara að það þurfa allir að vera viðbúnir. Kannski hefði verið gott að setja fólk í hraðpróf fyrst, en það var á þeim tíma ekki í boði. Þetta sýnir okkur að það er aldrei of varlega farið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×