Innlent

„Algjör kúvending“ Vinstri grænna kom á óvart

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín Oddsdóttir er formaður Stjórnarskrárfélagsins.
Katrín Oddsdóttir er formaður Stjórnarskrárfélagsins.

Algjör kúvending hefur orðið á stefnu Vinstri grænna í stjórnarskrármálum, að mati formanns Stjórnarskrárfélagsins. Flokkurinn hafi nú viðurkennt að hann standi ekki með nýrri stjórnarskrá heldur styðji „bútasaumsaðferð“ sem hafi ekki - og muni ekki - virka.

Katrín Oddsdóttir formaður Stjórnarskrárfélagsins birti pistil á Facebook í gær þar sem hún bar saman stefnu Vinstri grænna í stjórnarskrármálinu fyrir Alþingiskosningarnar 2017 og stefnuna fyrir kosningarnar nú. Hún segir nýju stefnuna hafa komið sér á óvart.

„Í raun hefur bara orðið algjör U-beygja eða kúvending á stefnu VG í stjórnarskrármálinu, við sjáum að árið 2017 var yfirlýsingin í þeirra stefnuskjali þessi: „Ný stjórnarskrá, ljúkum þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klárum nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs.“ Mjög skýrt að flokkurinn stóð með tillögum stjórnlagaráðs og niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar en núna er kominn allt annar tónn í þeirra stefnu, sem kom okkur sem berjumst fyrir nýju stjórnarskránni talsvert á óvart,“ segir Katrín.

Katrín vísar í ályktun landsfundar VG sem birt var eftir fundinn á laugardag. Þar segir að halda þurfi áfram „endurskoðun stjórnarskrárinnar", ný ákvæði um auðlindir í þjóðareign og umhverfis- og náttúruvernd hljóti afgreiðslu Alþingis - og ráðast þurfi í breytingar á öðrum köflum.

„Þarna er loksins búið að viðurkenna það að flokkurinn stendur ekki með nýju stjórnarskránni né niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012,“ segir Katrín.

„Það er að mínu viti ágætt að þau komi bara hreint fram og segi það vegna þess að það hefur verið holur hljómur í þessu hjá flokknum undanfarið, enda hafa þau ekki barist fyrir málinu á Alþingi.“

En hver er þá staðan á málinu hjá flokkunum fyrir komandi kosningar?

„Þeir flokkar sem hafa komið fram undanfarið, og skýrt tekið fram að þau munu berjast fyrir því að nýja stjórnarskráin taki gildi, eru Píratar, Samfylking og Sósíalistar. Ég veit að það er mikill vilji innan Viðreisnar um að fá þetta þar á stefnuskrána,“ segir Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins.


Tengdar fréttir

Meirihluti vill nýju stjórnarskrána

Rúmlega helmingur þjóðarinnar vill að breytingar verði gerðar á stjórnarskrá lýðveldisins í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs frá 2011, ef marka má nýjan þjóðarpúls Gallup. Iðulega er vísað til þessara tillagna sem nýju stjórnarskrárinnar.

„Þetta er nú meiri ræfildómurinn“

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, vandar ríkisstjórninni ekki kveðjurnar í stöðuuppfærslu sem hún birti á Facebook í gærkvöldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.