Innlent

Límdu haka­kross á aug­lýsingu frá Öl­gerðinni: „Maður er alveg miður sín“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Límmiðarnir voru settir yfir augu þeldökkrar fyrirsætu í auglýsingu Ölgerðarinnar fyrir gosdrykkinn Kristal.
Límmiðarnir voru settir yfir augu þeldökkrar fyrirsætu í auglýsingu Ölgerðarinnar fyrir gosdrykkinn Kristal. Vísir

Ölgerðinni barst í dag tilkynning um að búið væri að líma límmiða, með mynd af hakakrossinum og textanum „Við erum alls staðar“, á auglýsingu fyrirtækisins á Ártúnshöfða. Forstjóri Ölgerðarinnar segist miður sín vegna atviksins.

Ölgerðin var fljót að bregðast við ábendingum um límmiðana, sem límdir voru yfir augu þeldökkrar fyrirsætu og er nú búið að taka niður. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segist miður sín yfir því að nokkrum skuli detta í hug að dreifa þessu merki.

Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar.Vísir/Vilhelm

„Maður er eiginlega alveg miður sín að nokkrum skuli detta í hug að líma þetta merki á auglýsingar frá okkur. Ég finn virkilega til með módelinu sem þessir límmiðar eru límdir á,“ segir Andri í samtali við fréttastofu.

Nú verði það skoðað hjá fyrirtækinu hvort nokkuð sé hægt að gera í þessu. Það sé þó heldur flókið. Andri segir að fyrirtækið hafi aldrei lent í því áður að slík hatursmerki hafi verið sett á auglýsingar frá þeim.

Límmiðarnir hafa nú verið teknir niður.Vísir

„Maður getur ekki einu sinni ímyndað sér hvað svona einstaklingar eru að hugsa. Það er eitthvað mikið að ef þú ákveður að dreifa þessu merki,“ segir Andri Þór.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×